Höfundur: Hulda Björg Guðmundsdóttir
Heiti lokaverkefnis: „
Leiðbeinandi: Ragný Þóra Guðjohnsen / Sérfræðingur: Sigrún Ólafsdóttir
Ágrip/efni: Markmið rannsóknarinnar var að kanna upplifun og reynslu fullorðinna einstaklinga af því að eiga foreldri með alvarlegan geðrænan vanda. Geðræn veikindi varða ekki bara einstaklinginn sem við þau glímir heldur jafnframt fólkið sem stendur þeim næst, svo sem börn þeirra. Erlendar rannsóknir hafa meðal annars gefið til kynna að börn foreldra sem kljást við alvarlegan geðrænan vanda séu í áhættuhópi þegar kemur að því að þróa með sér tilfinninga-, hegðunar- eða vitsmunalegan vanda. Það getur síðan haft verulega þýðingu fyrir lífsgæði þeirra þegar fram í sækir svo sem félagslega og efnahagsleg stöðu, getu til að mynda náin sambönd og hættu á að þróa með sér geðrænan vanda. Auk þess hefur verið bent á að skortur sé á stuðningi fyrir aðstandendur innan heilbrigðisstofnana. Í rannsókninni er notuð eigindleg rannsóknaraðferð og tekin voru djúpviðtöl við sex einstaklinga á aldrinum 22 til 38 ára. Viðtölin voru þemagreind með það í huga að svara rannsóknarspurningunni. Í niðurstöðum kom fram að geðrænn vandi foreldris hafi í sumum tilvikum komið fram þegar viðmælendur voru börn. Þeir viðmælendur hafi vegna veikindanna upplifað skort á öryggi, umhyggju og nánd við foreldrið. Í öðrum tilvikum hafi börnin verið orðin ungmenni en í báðum tilvikum voru erfið samskipti og framkoma af hálfu foreldris og skortur á öryggi og fyrirsjáanleika hluti af upplifun viðmælendanna. Auk þess var eins og þau ættu foreldri en á sama tíma ekki foreldri þar sem það var fjarverandi og ekki alltaf fært að sinna foreldrahlutverkinu. Þessar óviðunandi aðstæður og í sumum tilvikum vanræksla ýtti undir reiði hjá börnunum og sköpuðu þessar aðstæður mikla vanlíðan hjá þeim. Það hafi síðan sett þau í viðkvæma stöðu og gert þau útsett fyrir til að mynda neikvæðum bjargráðum og öðrum erfiðum andlegum áskorunum í lífinu. Reynsla viðmælendanna gerði það að verkum að þau ætla að gera hlutina öðruvísi en foreldrar sínir, hvort sem það tengist andlegri heilsu eða uppeldishlutverkinu. Misjafnt var hver reynsla og upplifun þeirra var á heilbrigðiskerfinu vegna aðstæðna sem bæði sneru að hinu veika foreldri en jafnframt þeim sjálfum. Mikilvægt var fyrir viðmælendur að geta talað um upplifun sína og reynslu með það að leiðarljósi að takast á við upplifun sína og reynslu og gæta að velferð sinni um ókomin ár.