Höfundur: Anna Björk Marteinsdóttir
Leiðbeinendur: Arna H. Jónsdóttir og Guðrún Ragnarsdóttir
Ágrip/efni: Árið 2020 skall á heimsfaraldur. Þann 6. mars 2020 lýstu íslensk yfirvöld yfir neyðarstigi Almannavarna. Vegna heimsfaraldurs urðu breytingar í samfélaginu og stóð leikskólastigið frammi fyrir breyttum starfsaðstæðum vegna sóttvarnaaðgerða. Leikskólum var haldið opnum í faraldrinum en foreldrum barna var meinaður aðgangur að leikskólanum. Leikskólakennarar og starfsfólk gat ekki sótt fundi og námskeið vegna samkomutakmarkana. Rannsóknin er samfélagslega mikilvæg því þetta voru fordæmalausir tímar og því myndaðist einstakt tækifæri til að skoða áhrif þeirra á skólastarf.
Markmiðið rannsóknarinnar var að fá innsýn í það hvernig aðstoðarleikskólastjórum gekk að leiða starf í leikskólum á tímum faraldursins. Skoðað var hvaða áhrif faraldurinn hafði á störf aðstoðarleikskólastjóra. Einnig var litið til þess hvernig þeim tókst að viðhalda faglegri starfsemi í leikskólanum á þeim tíma sem leikskólanum var skipt í sóttvarnarhólf og samkomutakmarkanir voru í gildi. Rannsakað var hvort áhrifa heimsfaraldurs mætti greina í störfum aðstoðarleikskólastjóra.
Niðurstöður sýna að faglegt starf var sett til hliðar í sumum skólum á tímum heimsfaraldurs og námstækifæri barna í tilteknum leikskólum urðu færri. Þó má einnig sjá á niðurstöðunum að fagmennskan innan sumra leikskólanna hafi eflst í faraldrinum. Þannig virðist sem aðstoðarleikskólastjórum hafi almennt gengið vel að mynda nýja fagþekkingu með því að leiða samræður innan leikskólanna. Leikskólum bar að hólfa húsnæðið niður skv. fyrirmælum skólaskrifstofa en niðurstöður leiddu í ljós að leikskólarnir voru ekki nógu stórir til að slík hólfun skilaði ákjósanlegum ávinningi. Fram kom að viðmælendum fannst að þeir næðu ekki utan um öll þau verkefni sem bættust við í faraldrinum og að þeir upplifðu mun meiri streitu og mótþróa hjá sínu starfsfólki vegna styttingar vinnuvikunnar heldur en vegna faraldursins. Skilin milli vinnu og einkalífs urðu óljós. Niðurstöður benda einnig til þess að áskoranir tengdar faraldrinum hafi vakið starfsfólk til umhugsunar um hve mikilvægt það er að eiga í félagslegum samskiptum. Einnig er velt upp hlutverki leikskólans í faraldrinum og hvernig utanaðkomandi þættir hafa áhrif á starfsemi í leikskólanum auk þeirra miðlægu breytinga sem voru teknar án samráðs. Þannig virðast utanaðkomandi þættir eins og faraldurinn geta haft meiri áhrif á leikskólastarfið en þörf foreldra og samfélagsins.