Höfundur: Íris Björk Eysteinsdóttir
Leiðbeinandi: Íris Ellenberger Sérfræðingur: Anna Kristín Sigurðardóttir
Ágrip/efni: Í þessu lokaverkefni er inngilding hinsegin nemenda í skólum í Kópavogi rannsökuð. Sjónum er beint að því hvernig hinsegin fræðslu er háttað í skólunum, hversu markviss hún er og hvernig hún er útfærð. Markmiðið er að rannsaka að hvaða marki umhverfi og skólamenning sé inngildandi fyrir hinsegin nemendur og hver upplifun viðmælanda sé af bakslagi í réttindabaráttu hinsegin fólks. Notuð var eigindleg rannsóknaraðferð þar sem tekin voru átta hálfopin viðtöl við skólastjórnendur í átta grunnskólum í Kópavogi og var hún framkvæmd veturinn 2023-2024. Viðtölin voru tekin upp og afrituð orðrétt og unnið úr þeim. Gögnin voru túlkuð og þemagreind.
Niðurstöðurnar leiddu í ljós tvö þemu: (1) Nýfrjálshyggja vinnur gegn umbótum á skólasamfélaginu og leggur áherslu á að breyta þurfi ákveðnum einstaklingum. Þar kemur í ljós að nýfrjálshyggja kemur í veg fyrir breytingar á skólasamfélaginu þar sem litið er á hinsegin andúð sem vanda fárra, óupplýstra eða fordómafullra einstaklinga sem þurfi að laga. Þeir einstaklingar tilheyra sjálfir oft minnihlutahópi og sökinni er kastað á þá í stað þess að fara í róttækari aðgerðir sem krefjast þess að breyta samfélaginu.
Niðurstöðurnar sýna að hugmyndir nýfrjálshyggju um innlimun samkynhneigðra í samfélagið skapi hættu á að aðrir minnihlutahópar, eins og til dæmis nemendur með námsvanda eða erlendan bakgrunn verði útilokaðir. Áhrif nýfrjálshyggju á hinsegin fólk hafa greinst í fyrri rannsóknum á Íslandi en þau hafa ekki áður verið rannsökuð í íslenskum grunnskólum. Hitt þemað er: (2) Fánum flaggað og nemendur fá þau skilaboð að umhverfið sé öruggt á meðan sís-gagnkynhneigð viðmið eru ráðandi. Niðurstöður sýna að sís-gagnkynhneigðarhyggja er ráðandi í skólaumhverfinu og þegar hinsegin fánum er flaggað er þeim ætlað að gefa nemendum þau skilaboð að umhverfið sé öruggt fyrir hinsegin nemendur. Niðurstöðurnar sýna að hinsegin andúð birtist í umhverfi allra skólanna í formi þöggunar, neikvæðrar orðræðu og fordóma. Fánarnir senda fölsk skilaboð um öruggt umhverfi því hinsegin nemendur verða fyrir öráreiti. Niðurstöðunum er ætlað að varpa ljósi á stöðu hinsegin nemenda í skólum í Kópavogi og vonast er til að þær auki samtal í átt að breytingum í anda hinsegin menntunarfræða. Kjarni hinsegin menntunarfræða er að hætta að flokka manneskjur, vera meðvituð um ríkjandi norm gagnkynhneigðarhyggju svo hægt sé að breyta þeim, horfa á samfélagsleg málefni á hlutlausan hátt með tilliti til kynhneigðar og kynvitundar og kenna nemendum gagnrýna hugsun. Það gagnast ekki bara hinsegin nemendum heldur öllum.