Áhugi unglinga á stærðfræði: Tengsl við sálfræðilegar grunnþarfir

Höfundur: Fjölnir Brynjarsson 

Leiðbeinendur: Berglind Gísladóttir og Kristján Ketill Stefánsson

Ágrip/efni: Íslenskt menntakerfi stendur frammi fyrir áskorunum þegar kemur að árangri nemenda í stærðfræði í alþjóðlegum samanburði. Sýnt hefur verið fram á mikilvægi áhuga nemenda þegar kemur að árangri í námi og því vert að spyrja hvaða þættir séu innan áhrifasviðs kennara þegar kemur að því að efla áhuga nemenda á stærðfræði. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna hvort tengsl væru milli áhuga á stærðfræði og þeirra þriggja grunnþarfa sem liggja að baki sjálfsákvörðunarkenningunni, þ.e. þörfinni fyrir hæfni, tengsl og sjálfræði meðal íslenskra ungmenna. Þátttakendur voru 13.319 nemendur í 6 .-10. bekk á Íslandi sem svöruðu nemendakönnun Skólapúlsins skólaárið 2022-2023. Niðurstöður blandaðs líkans gáfu til kynna sterk tengsl milli áhuga á stærðfræði og þarfarinnar að finna fyrir trú á eigin getu (hæfni), lítil tengsl milli áhuga á stærðfræði og sambands nemenda við kennara (tengsla), og loks engin tengsl milli áhuga á stærðfræði og stjórnar á eigin lífi (sjálfræðis). Niðurstöðurnar gáfu einnig til kynna að stúlkur höfðu lítillega meiri áhuga á stærðfræði en drengir og að með aldri nemenda virtist áhugi vera minni á stærðfræði. Niðurstöðurnar benda til þess að mögulega þurfi að endurhugsa vægi sjálfræðis í sjálfsákvörðunarkenningunni. Þær benda þó fyrst og fremst til þess að mikilvægt sé að kennarar efli trú nemenda á eigin stærðfræðigetu til að auka áhuga nemenda í greininni. Auk þess virðast kennarar geta haft töluverð áhrif á stærðfræðiáhuga með samskiptum sínum við nemendur, fasi og framkomu.