Höfundur: Hafdís Arna Sigurðardóttir
Leiðbeinandi: Katrín Ólafsdóttir / Sérfræðingur: Bjarnheiður Kristinsdóttir
Ágrip/efni: Markmið þessarar rannsóknar var að greina hvernig kynjuð rými birtast í stærðfræðikennslu á unglingastigi í grunnskólum. Til grundvallar rannsókninni var leitast við að svara fjórum rannsóknarspurningum: 1. Hvernig birtast kynjuð rými í stærðfræðikennslu á unglingastigi í grunnskólum? 2. Hver er þekking stærðfræðikennara á kynjuðum rýmum? 3. Hversu meðvitaðir eða ómeðvitaðir eru stærðfræðikennarar um rýmin sem þeir skapa í skólastofum sínum m.t.t. hugmyndarinnar um kynjuð rými? 4. Hvernig vinna stærðfræðikennarar að því að sporna gegn eða ýta undir kynjuð rými í sínum skólastofum? Sjónarhorn rannsóknarinnar byggir á gagnrýnni femínískri- og hinsegin kennslufræði og gagnaöflun fór fram með vettvangsrannsóknum og hálf-opnum viðtölum. Alls voru 15 vettvangsathuganir og sjö viðtöl þemagreind frá sjö þátttakendum.
Þrjú þemu voru greind: (1) Hlutleysi kennara gagnvart umræðunni um kynjajafnrétti og kynjun í skólastofunni. Þar kom fram að þátttakendur leggja sig almennt fram við að sýna hlutleysi gagnvart umræðunni um kynjajafnrétti eða kynjun með því að leggja áherslu á að allir einstaklingar séu eins. Með þessu gera þeir ómeðvitað lítið úr þeim breytum sem geta jaðarsett einstakling. (2) Sætaskipan hefur áhrif á kynjuð rými. Sætaskipan í kennslustofunum var áberandi í gögnunum og við greiningu kom í ljós að hún hefur mikil áhrif á birtingu kynjaðra rýma. Einnig hefur ásetningur kennara, þ.e.a.s. hvers vegna og hvenær þeir nýta sætaskipan í kennslu hjá sér, áhrif á kynjuð rými. (3) Hugmyndir kennara um kynjaðar staðalmyndir nemenda. Í því þema mátti greina að þátttakendur höfðu ákveðnar hugmyndir um nemendur sem birtust í kynjuðum staðalmyndum. Þessar hugmyndir mótuðu skoðanir þátttakendanna um kennsluna og höfðu áhrif á rýmið og hversu kynjað það kann að vera. Einnig höfðu þær áhrif á hvort kennararnir ýttu undir kynjuð rými eða spornuðu gegn þeim.
Rannsókn þessi gefur ákveðna innsýn inn í viðhorf stærðfræðikennara gagnvart jafnréttismenntun en ljóst er að skortur er á umræðunni um kynjajafnrétti innan stærðfræðinnar. Útbreitt viðhorf virðist vera meðal stærðfræðikennara að jafnréttismenntun skuli einskorðast við félagsfræðigreinar þrátt fyrir lög og reglur sem segja að jafnréttismenntun skuli vera í forgrunni alls skólastarfs.