Höfundur: Bjarndís Arnardóttir
Leiðbeinandi: Gréta Jakobsdóttir Sérfræðingur: Birna Varðardóttir
Ágrip/efni: Algengi sykursýki 2 hefur vaxið hratt á heimsvísu síðustu áratugi. Á Íslandi tvöfaldaðist tíðnin í öllum aldurshópum frá 2005-2018 og talið að 10.600 manns hafi verið með sjúkdóminn árið 2018 en muni hækka í 23.000 manns árið 2040 ef ekkert er að gert. Sjúkdómurinn getur valdið skemmdum á æðum og taugum og því sterkur áhættuþáttur fjölda annarra lífshættulegra sjúkdóma. Áhættuþættir sem stjórnast af lífsstíl hafa mikil áhrif á þróun sykursýki 2. Með lífsstílsbreytingum, sérstaklega breyttu mataræði, má að mestu vinna bug á sjúkdómnum og jafnvel snúa honum við. Rannsóknir sýna að grænkeralífstíll inniheldur mataræði sem vinnur vel á sykursýki 2 auk þess að hafa verndandi áhrif á umhverfi, dýravelferð og náttúru.
Tilgangur og markmið rannsóknarinnar var að öðlast þekkingu á áhrifum grænkeralífsstíls og grænkerafæðis á sykursýki 2 ásamt því að skoða hvort munur sé á heilsusamlegri og óheilsusamlegri grænkerafæðu. Með því má varpa ljósi á hvort nýta megi lífsstílinn sem forvörn og/eða meðferð við sykursýki 2. Kerfisbundinni fræðilegri samantekt var beitt sem byggir á rafrænni leit rannsókna í gagnabankanum PubMed. Leitin miðaðist við megindlegar rannsóknir frá 2013- 2023. Allir titlar og útdrættir sem fundust við leitina voru skimaðir með tilliti til inntökuskilyrða, sem voru m.a. frumrannsóknir fullorðinna þátttakenda. Þær greinar sem stóðust skimunina voru lesnar í fullri lengd. Níu rannsóknir uppfylltu inntökuskilyrðin, sex stýrðar slembirannsóknir og þrjár áhorfsrannsóknir. Útkomumælingarnar voru ýmist blóðsykurstjórnun, insúlínviðnám, insúlínnæmi, efnaskipti eftir máltíð, blóðþrýstingur, blóðfitugildi, líkamsþyngd, líkamssamsetning, kólesteról, hjartablóðþurrð, næringarstaða, hlutfall fitumassa, fita í innyflum og HbA1C .
Niðurstöður stýrðu slembirannsóknanna, þar sem íhlutunin var ótakmarkað fituskert grænkerafæði, benda til þess að mataræðið henti vel sem forvörn/meðferð við sykursýki 2 m.a. vegna verndandi eiginleika. Áhorfsrannsóknirnar sýna þó að gæði grænkerafæðisins skiptir máli þegar kemur að því að bæta blóðsykurstjórn einstaklinga með sykursýki 2.
Grænkerafæði getur því dregið verulega úr áhættuþáttum sykursýki 2 og stuðlað að þyngdartapi umfram hefðbundið mataræði. Heilsugæslustöðvar ættu skoða þennan valkost sem forvörn/meðferð fyrir skjólstæðinga sem eru greindir í áhættu eða með sykursýki 2. Framtíðar rannsóknir ættu að beinast að enn frekari rannsóknum á áhrifum grænkeralífsstíls á sykursýki 2.