Höfundur: Jónína Helga Ólafsdóttir
Leiðbeinendur: Anna Lind Pétursdóttir og Auður Soffíu Björgvinsdóttir
Ágrip/Efni:
Þegar börn eiga erfitt með að ná tökum á lestri þarf að leggja allt kapp á að aðstoða þau, bæði í skóla og á heimili. Mikilvægt er að sníða lestrarkennslu betur að þeirra þörfum og einnig heimalestur, enda rík hefð fyrir heimaþjálfun á Íslandi. Margar leiðir eru færar en í þessari rannsókn var foreldrum kennt að nota æfingar G-PALS (e. 1st grade Peer-Assisted Learning Strategies) við lestarþjálfun heima með börnum í lestrarvanda. Námsefnið hentar vel til að einstaklingsmiða lestrarkennslu og veita nauðsynlega þjálfun, þar sem auðvelt er að velja verkefni á réttu erfiðleikastigi og verkefnin fela í sér skýrar leiðbeiningar, jákvæða endurgjöf, uppbyggilega leiðréttingu og endurteknar æfingar. Foreldrar þriggja nemenda í 2. bekk með slaka lestrarfærni tóku upp heimalestrarstundir, bæði fyrir og eftir að þeir fengu leiðsögn og myndbandssýnikennslu um notkun G-PALS verkefna. Með upptökum foreldra var lagt mat á hvernig framkvæmd heimalestrarstunda þróaðist, út frá fjölda tækifæra til svörunar, jákvæðri endurgjöf foreldra, lengd heimalestrarstunda og villuleiðréttingu foreldra. Reglulega var lagt mat á hljóðaþekkingu, hljóðafimi, fimi í lestri algengra orða og orðleysufimi. Notað var margfalt grunnskeiðssnið yfir þátttakendur til að meta áhrif af leiðsögn og myndbandssýnikennslu á framkvæmd foreldra í heimalestri og áhrif G-PALS lestrarþjálfunar á lestrarfærni barnanna. Helstu niðurstöður voru þær að foreldrar veittu börnum sínum lengri tíma og fleiri tækifæri til að æfa lestur og jákvæð endurgjöf varð tíðari. Auk þess lásu nemendur G-PALS æfingar með meiri nákvæmni en annað lesefni og foreldrar leiðbeindu þeim betur. Við lok þjálfunartímabils hafði hljóðaþekking og orðleysufimi aukist hjá öllum nemendum og hljóðafimi og fimi í lestri algengra orða hjá tveimur. Foreldrar framkvæmdu G-PALS aðferðir með 90-95% nákvæmni og við mat á félagslegu réttmæti kom fram að foreldrum fannst G-PALS þjálfunaraðferðir gagnlegar og auðveldar í framkvæmd. Niðurstöður rannsóknar gefa vísbendingar um að G-PALS æfingar á viðeigandi erfiðleikastigi geti verið raunhæfur kostur fyrir kennara sem vilja styðja foreldra í lestrarþjálfun barna sinna heima fyrir og stuðla þannig að bættu lestrarnámi þeirra.