Nafn nemanda: Adna Mesetovic
Leiðbeinendur: Rúna Sif Stefánsdóttir og Vaka Rögnvaldsdóttir
Ágrip/efni: Bakgrunnur: Svefn er lykilþáttur í þroska, vellíðan og frammistöðu barna og unglinga. Þrátt fyrir aukna þátttöku stúlkna í knattspyrnu eru til takmarkaðar upplýsingar um svefnvenjur, þreytu og daglúra. Markmið rannsóknarinnar var að skoða svefnvenjur, svefnlengd, þreytu og daglúra hjá 12 ára íslenskum knattspyrnustúlkum. Einnig var kannað hvort svefnvenjur væru mismunandi eftir getu leikmanna. Aðferð: Rannsóknin var hluti af langtímarannsókninni Stúlkur, knattspyrna og rannsókn á atgervi (SKORA) sem framkvæmd var vorið 2024. Þátttakendur voru 138 tólf ára knattspyrnustúlkur frá 10 liðum á höfuðborgarsvæðinu sem svöruðu spurningalista um svefnvenjur, þreytu og daglúra. Þjálfarar mátu leikmenn eftir getu (lið 1,2 og 3). Gögn voru greind með lýsandi tölfræði og einþátta dreifigreiningu (Welch’s ANOVA). Niðurstöður: Stúlkurnar fóru að meðaltali að sofa kl. 21:54 á virkum dögum og kl. 23:06 um helgar og sváfu að meðaltali 9,3 klst. á virkum dögum og 10,0 klst. um helgar. Flestar náðu ráðlagðri svefnlengd (>9 klst.), eða 76,8% á virkum dögum og 88,4% um helgar. Marktækur munur kom fram á háttatíma um helgar eftir þreytu (p = 0,014), þar sem stúlkur sem upplifðu sig oftast þreyttar fóru seinna að sofa. Enginn marktækur munur fannst á svefnlengd eða háttatíma stúlknanna eftir getustigi. Ályktun: Niðurstöðurnar benda til þess að 12 ára knattspyrnustúlkur fái almennt nægan svefn, en aukin þreyta tengdist seinni háttatíma um helgar. Mikilvægt er að hvetja ungt íþróttafólk til að viðhalda reglulegri og heilbrigðri svefnrútínu sem styður við líkamlega endurheimt og bætir frammistöðu.