Nafn nemanda: Sóley Alexandra Þorsteinsdóttir
Leiðbeinandi: Anna Magnea Hreinsdóttir
Sérfræðingur: Ingibjörg Ósk Sigurðardóttir
Ágrip/efni: Markmið verkefnisins var að endurnýja starfsmannahandbók fyrir leikskólann Esjuberg með það fyrir augum að auka aðgengi og notkun starfsmanna á handbókinni og til þess að uppfæra þær upplýsingar sem hún hefur að geyma. Tilgangurinn var meðal annars að styrkja móttöku nýliða og samræma starfshætti starfsfólks í átt að sameiginlegu markmiði. Þær spurningar sem leiddu ferlið við skrif handbókarinnar voru: Hvaða upplýsingar þurfa að koma fram í starfsmannahandbókinni að mati starfsfólks og stjórnenda leikskólans? Hvernig sjá starfsmenn og stjórnendur fyrir sér að nýta handbókina? Gagnaöflunin byggir á blandaðri aðferðarfræði og var megindlegra gagna fyrst aflað í gegnum spurningalistakönnun sem 35 starfsmenn leikskólans svöruðu. Þau voru greind með lýsandi tölfræði og innihaldsgreiningu. Niðurstöðurnar voru nýttar til þess að móta viðtalsramma fyrir eigindlega hluta rannsóknarinnar, en þá var gagna aflað með rýnihópa- og einstaklingsviðtölum við sex stjórnendur leikskólans og þau greind með þemagreiningu. Að lokum voru niðurstöðurnar samþættar, dregnar af þeim ályktanir og starfsmannahandbókin skrifuð. Niðurstöður benda til þess að starfsfólk og stjórnendur leikskólans vilji starfsmannahandbók sem endurspeglar starf leikskólans og sé bæði upplýsandi og leiðbeinandi. Endurgerð handbókarinnar var talin skapa tækifæri til að samræma verkferla, efla faglegt starf og styðja við innleiðingu nýrrar uppeldisstefnu innan leikskólans. Handbókin mun nýtast sérstaklega við móttöku nýrra starfsmanna og sem stuðningur fyrir stjórnendur í leiðbeinandi hlutverki. Til að handbókin haldi gildi sínu til framtíðar þarf hún að vera aðgengileg öllum starfsmönnum, endurskoðuð reglulega og nýtt sem grundvöllur fyrir samræður um starfshætti og faglegt starf leikskólans.