„Hún þarf vernd – hann þarf leiðsögn“ Sögur foreldra um ábyrgð og eftirlit í stafrænum heimi barna.

Nafn nemanda: Arna Björk Þórsdóttir
Leiðbeinandi: Annadís Gréta Rúdólfsdóttir
Sérfræðingur: Ragný Þóra Guðjohnsen

Ágrip/efni: Markmið rannsóknarinnar er að varpa ljósi á hugmyndir þátttakenda um hlutverk foreldra og ábyrgð tengt samfélagsmiðlanotkun barna og hvernig orðræða um öryggi og eftirlit mótast af kyngervi barnanna. Fræðilegt sjónarhorn rannsóknarinnar byggir á mótunarhyggju og var gögnum aflað með sögulokaaðferð (e. story completion method). Þátttakendur fengu upphaf að sögu og voru beðnir um að ljúka henni með eigin orðum. Söguupphafið lýsti ýmist stúlku eða dreng sem greindi foreldrum sínum frá áhættusömum samskiptum á samfélagsmiðlum og áttu þátttakendur að lýsa viðbrögðum og aðgerðum foreldranna við aðstæðunum. Þátttakendur rannsóknarinnar voru foreldrar sem eiga 12-15 ára börn sem eru virk á samfélagsmiðlum. Þátttakendur voru alls 40 og þar af voru 36 frásagnir þemagreindar, 17 sögur þar sem barnið í sögunni var stúlka og 19 þar sem barnið var drengur.

Greiningin leiddi í ljós fimm megin þemu: (1) Samtal og fræðsla sem helstu verkfæri foreldra; (2) Traust er lykillinn að örygginu; (3) Takmarkandi aðkoma og eftirlit réttlætt með umhyggju; (4) Hún þarf vernd – hann þarf leiðsögn og (5) Foreldrar reyna sitt besta við að leiðbeina börnum sínum á ókunnum slóðum. Niðurstöður sýna að foreldrar leggja áherslu á traust, umhyggju og öryggi sem lykilforsendur ábyrgðar en að nálgun þeirra mótist af kyngervi barnsins. Frásagnir um stúlkur tengdust oftar orðræðu um vernd og hættu en frásagnir um drengi frekar leiðsögn og sjálfstæði. Margir þátttakendur lýsa óöryggi foreldra í því að fylgjast með og leiðbeina börnum sínum í netumhverfi sem þeir þekkja sjálfir takmarkað. Rannsóknin dregur fram mikilvægi fræðslu og stuðnings við foreldra í stafrænu uppeldi og eykur skilning á því hvernig foreldrar móta ábyrgð sína og uppeldisnálgun í ljósi nýrra áskorana í stafrænum veruleika. Hún sýnir jafnframt notagildi sögulokaaðferðarinnar til að skoða menningarlegar hugmyndir, viðhorf og orðræðu en aðferðin er að ryðja sér til rúms  í íslenskum rannsóknum.