Höfundur: Jóhanna María Bjarnadóttir
Leiðbeinendur: Auður Soffíu Björgvinsdóttir og Kristján Ketill Stefánsson
Ágrip/Efni:
Ár eftir ár á tímabilinu 2019-2024 náði hátt hlutfall 1. bekkinga ekki viðmiðum um fjölda rétt lesinna orða á mínútu auk þess sem íslensk ungmenni hafa fengið sífellt lægra skor á lesskilningsprófum PISA frá árinu 2009-2022. Hérlendis er hefð fyrir því að lestrarþjálfun fari fram heima fyrir í formi heimalesturs, þar sem kvittað er fyrir hlustun. Þegar lestur er þjálfaður er nauðsynlegt að hann sé leiðréttur af nákvæmni svo rangur lestur festi sig ekki í sessi. Tilgangur rannsóknarinnar var að varpa skýru ljósi á fyrirkomulag og framkvæmd heimalesturs út frá sjónarhóli kennara með megindlegri spurningakönnun. Þátttakendur voru kennarar í 1. bekk á landsvísu haustið 2024. Niðurstöður bentu til að algengast væri að kennarar settu fyrir heimalestur 15 mínútur í senn, fimm sinnum í viku og ætluðust til að kvittað væri fyrir hlustun. Um þriðjungur kennara gerði ekki sömu kröfur til allra nemenda um umfang heimalesturs og viku helst frá almennum kröfum vegna tungumálakunnáttu nemenda. Kennarar 1. bekkjar mátu takmarkaða íslenskuþekkingu foreldra sem helstu hindrunina fyrir framkvæmd heimalesturs af þeim hindrunum sem metnar voru. Niðurstöður rannsóknarinnar gefa tilefni til endurskoðunar á núverandi framkvæmd heimalesturs í þeim tilgangi að finna tækifæri til framfara svo allir nemendur njóti árangurs af nákvæmri og endurtekinni lesfimiþjálfun.
Efnisorð: Heimalestur, lestrarkennsla, lesfimi, lestrarþjálfun, íslenska sem annað tungumál