„Aldrei myndi ég kalla dagmömmu fagmann“ – Faglegur munur á daggæslu í heimahúsum og ungbarnaleikskólum í Reykjavík með tilliti til farsældar ungra barna.

Höfundur: Drífa Sveinbjörnsdóttir

Leiðbeinandi: Kristian Guttesen
Sérfræðingur: Ólafur Páll Jónsson

Ágrip/Efni:

Þjónusta og kerfi sem hafa það hlutverk að sinna börnum og foreldrum eru gríðarlega mikilvæg í velferðarsamfélagi. Að þessum kerfum þarf að hlúa og beita ríkjandi venjum og gagnrýnu hugarfari í takt við þróun samfélagsins. Markmið rannsóknarinnar er að kanna hvort gerðar eru sömu faglegu kröfur til dagforeldra sem sinna daggæslu í heimahúsum, annars vegar og starfsmanna ungbarnaleikskóla, hins vegar, um umönnun og umhyggju ungra barna í Reykjavík. Skyggnst verður inn í upplifun og reynslu foreldra sem hafa reynslu af báðum kerfum með tilliti til farsældar barna.

Framkvæmd var eigindleg rannsókn þar sem notast var við samblöndu af markmiðsúrtaki (e. purposive sample) og hentugleikaúrtaki (e. convenience sample). Tekin voru hálfopin viðtöl við átta mæður sem eiga það sameiginlegt að hafa reynslu af tveimur dagvistunarkerfum í Reykjavík, dagvistun í heimahúsi, ungbarnaleikskólum eða sérstökum ungbarnadeildum leikskóla. Niðurstöðurnar sýndu að það sem skiptir forráðamenn mestu máli þegar kemur að daggæslu ungbarna eru þættir eins og gagnsæi á úthlutun plássa, öryggi, aðbúnaður, upplýsingaflæði, þroski, umhyggja og líðan barna. Þær töldu að fagmennska eða fagleg vinnubrögð í hverjum þessara þátta skipti miklu máli með tilliti til farsældar barna og í ljósi þeirra kjósa allar mæðurnar nema ein ungbarnaleikskóla í stað dagvistunar hjá dagforeldrum.