„Þakklát fyrir reynsluna en ekki fyrir krabbameinið“ Upplifun ungra kvenna af krabbameini og lærdómur þeirrar reynslu

Höfundur: Ebba Áslaug Kristjánsdóttir 

Leiðbeinandi: Ingibjörg V. Kaldalóns

Ágrip/Efni: Tilgangur rannsóknarinnar er að varpa ljósi á upplifun ungra kvenna af krabbameini og greina hvaða lærdóm þær draga í kjölfar þeirrar lífsreynslu. Sá hópur er á viðkvæmu æviskeiði og ýmislegt sem bendir til að veikindin hafi veruleg áhrif á líf þeirra. Þátttakendur í rannsókninni eru fjórar ungar konur sem skrifað hafa um upplifun sína á þeim tíma sem þær ganga í gegnum krabbameinsmeðferð, í formi frásagna á samskiptamiðlinum Instagram og ljóða sem gefin hafa verið út. Þau gögn liggja til grundvallar rannsókninni auk djúpviðtala við sömu konur eftir að þær hafa náð bata. Þannig gefst tækifæri til að skoða upplifun þeirra á þeim tíma sem þær ganga í gegnum krabbameinsmeðferð ásamt því að greina hvaða augum þær líta þá reynslu síðar. Rannsóknin er eigindleg og byggir á fyrirbærafræðilegri nálgun þar sem horft er til lífsreynslu fólks og þeirrar merkingar sem í hana er lögð. Í niðurstöðum rannsóknarinnar eru dregin fram þemu sem endurspegla upplifun af tilfinningalegum átökum, breytingum á sjálfsmynd og jákvæðu hugarfari í gegnum sársauka­fullt ferli. Þegar síðar er litið um öxl kemur í ljós að þátttakendur draga lærdóm af veikindunum sem einkum snýr að þeim sjálfum, tengslum við aðra og viðhorfi til lífsins. Rannsóknarefnið er skoðað af fræðilegum sjónarhóli jákvæðrar sálfræði þar sem samband áfalla og hamingju liggur til grundvallar. Þar að auki er byggt á kenningu um áfalla­þroska þar sem horft er til þess möguleika að áföll geti stutt við persónulegan þroska fólks og innihaldsríkt líf. Rannsóknir á því sviði hafa fram til þessa verið fátíðar hér á landi. Hagnýtt gildi rannsóknarinnar felst í auknum skilningi á viðkvæmri stöðu ungra kvenna sem greinast með krabbamein og niðurstöður hennar gefa vísbendingar um hvaða þættir geta verið hjálplegir til þess að styðja við þann hóp á farsælan hátt.