Hamingjuhópurinn – „Núna er maður miklu hugrakkari“

Höfundur: Bryndís Ingimundardóttir

Leiðbeinandi: Marit Davíðsdóttir
Meðleiðbeinandi: Eva Harðardóttir

Ágrip/efni:

Markmið rannsóknarinnar var að varpa ljósi á hvernig stúlkur í 6. bekk upplifa þátttöku sína í Hamingjuhópnum, verkefni sem byggir á jákvæðri sálfræði og hefur það að markmiði að efla vellíðan, félagslega færni og sjálfsmynd nemenda. Rannsóknin byggðist á eigindlegri aðferðafræði og viðtölum við þátttakendur. Við greiningu gagna komu fram fjögur meginþemu sem voru tengd við PERMA velferðarkenningunni (Seligman, 2011): jákvæðar tilfinningar (P), áhugi og innlifun (E), tengsl (R), tilgangur (M) og árangur (A). Niðurstöðurnar sýna að þátttaka í Hamingjuhópnum hafði jákvæð áhrif á líðan stúlknanna og efldi meðvitund þeirra um eigin styrkleika og mikilvægi góðra samskipta. Þær lýstu auknu sjálfstrausti, bættri félagsfærni og sterkari tengslum við samnemendur. Verkefnið hafði einnig jákvæð áhrif á skólabrag og almenna líðan nemenda. Þessar niðurstöður eru í samræmi við fyrri rannsóknir sem sýna að markviss jákvæð inngrip geta haft verndandi áhrif á geðheilsu barna og dregið úr einmanaleika og kvíða. Framlag rannsóknarinnar felst í því að draga fram sjónarhorn barnanna sjálfra á áhrif jákvæðra inngripa sem miða að því að styrkja vellíðan innan skólasamfélagsins. Hún bendir til þess að með tiltölulega einföldum en markvissum aðferðum sé hægt að efla líðan og félagsleg tengsl í grunnskólum. Niðurstöðurnar styðja mikilvægi þess að verkefni af þessu tagi verði hluti af heildstæðu skólastarfi með áherslu á geðrækt og félagslega velferð barna.