Hnattræn borgaravitund ungs fólks í UNESCO framhaldsskólum á Íslandi

Höfundur: Guðrún Birna Guðmundsdóttir

Leiðbeinandi: Eva Harðardóttir
Sérfræðingur: Ragný Þóra Guðjohnsen

Ágrip/efni:

Um allan heim starfar fjöldinn allur af leik- grunn- og framhaldsskólum undir alþjóðlegu samstarfsneti UNESCO með það að markmiði að efla hnattræna vitund, þekkingu og skilning ungs fólks m.a. með því að leggja áherslu á mikilvægi mannréttinda, friðar og sjálfbærni. Þessi rannsókn skoðaði hvernig nemendur í íslenskum UNESCO framhaldsskólum skilja og taka afstöðu til hnattrænna áskoranna í ofangreindum anda hvaða leiðir þeir sjá til borgaralegrar þátttöku. Sérstaklega var lögð áhersla á hvaða vettvang þeir telja áhrifaríkastan, hvort þeir upplifi tækifæri til samfélagslegra áhrifa og hvernig þeir meta ábyrgð einstaklingsins í hnattrænu samhengi. Rannsóknin byggði á eigindlegri sögulokaaðferð (e. story completion method) en alls fengust sögur frá tæplega 90 nemendum úr fjórum íslenskum UNESCO framhaldsskólum.

Í niðurstöðum kemur i ljós að borgaravitund ungs fólks endurspeglast fyrst og fremst í gegnum umhverfis- og loftslagsmál. Þau lýsa fjölbreyttum leiðum til að takast á við áskoranir heimsins, þar sem velgengni, völd og áhrif koma við sögu. Þátttakendur telja mörg að kerfisbreytinga sé þörf til þess að takast á við hnattrænar áskoranir en eru einnig meðvitaðir um mikilvægi einstaklingsbundinna aðgerða. Þá kemur fram ákveðin framtíðaróvissa og virðist sem að persónulegar áskoranir hafi áhrif á borgaravitund þeirra sem sýnir að ungmenni eru ekki aðeins að leita leiða til að takast á við hnattrænar áskoranir heldur einnig að finna sinn stað í samfélaginu. Niðurstöður undirstrika mikilvægt hlutverk skóla við að efla hnattræna vitund og einkum og sér í lagi að auka fjölbreytt tækifæri ungs fólks til borgaralegrar þátttöku.

Lykilhugtök

Hnattræn borgaravitund, hnattræn borgarmenntun, markmið menntunar, sögulokaaðferð, UNESCO-skólar.