Höfundur: Hrafnhildur Sigurðardóttir
Leiðbeinandi: Annadís Greta Rúdólfsdóttir Sérfræðingur: Anna Lilja Einarsdóttir
Ágrip/efni: Markmið rannsóknarinnar var að afla ítarlegra upplýsinga um hvaða áskoranir og tækifæri foreldrar upplifa af snjalltækjanotkun barna sinna og hvernig þeir reyna að tryggja öryggi barnanna við notkun snjalltækja. Upplýsingar sem foreldrar fá í tengslum við örugga snjalltækjanotkun barna eru misvísandi ásamt því að tæknin breytist afar hratt.
Rannsóknin byggir á eigindlegri rannsóknaraðferð í formi rafræns spurningalista (e. qualitative survey) þar sem þátttakendur skrifa svör við opnum spurningum sem tengjast snjalltækjanotkun barna. Alls tóku þátt 111 foreldrar en þó aðeins 60 (53,15%) sem svöruðu öllum spurningum, þar af voru 32 (53,33%) konur og 28 (46,67%) karlar á aldrinum 30-60 ára eða eldri.
Svör þátttakenda voru þemagreind út frá rannsóknarspurningum þar sem fram komu fjögur meginþemu: Foreldrar leitast við að stýra snjalltækjanotkun barna sinna, Snjalltæki veita tækifæri til að afla sér þekkingar og tengjast alheiminum, Það er stundum erfitt fyrir barnið að leggja tækið frá sér og Stafræni heimurinn mótar sýn barnanna á heiminn og sig sjálf á neikvæðan hátt. Niðurstöður benda til þess að foreldrar reyna að stýra snjalltækjanotkun barna sinna og stýra þeim í átt að jákvæðri notkun, þeir upplifa að tækin bjóði upp á ýmis tækifæri en á sama tíma ýmsar áskoranir tengdar stafrænum heimi. Þeir virðast upplifa ákveðinn ótta gagnvart tækninni, áhrifum hennar á börnin og fjölskyldulífið. En ekki síst gagnvart hlutverki sínu sem foreldrar í stafrænum heimi, þar sem tæknin breytist ört og þeir geta ekki fylgst með öllu sem þar fer fram.
Þessi rannsókn veitir innsýn í óöryggi foreldra gagnvart snjalltækjanotkun barna sinna. Hún varpar einnig ljósi á mikilvægi þess að rannsaka þurfi viðfangsefnið betur með tilliti til þess að foreldrar eru ekki að fá nægar upplýsingar um hvernig þeir geti stuðlað að öryggi barna sinna í stafrænum heimi.