Höfundur: Guðmunda Gunnlaugsdóttir
Leiðbeinandi: Ingibjörg Kaldalóns
Sérfræðingur: Marit Davíðsdóttir
Ágrip/Efni:
Meginmarkmið þessarar rannsóknar var að fá innsýn í hvort og frá hverjum grunnskólakennarar fá jákvæða endurgjöf, hvernig hún birtist, hvaða máli hún skiptir og hver áhrif hennar eru að mati kennara. Hugmyndin er sprottin út frá niðurstöðum tveggja íslenskra rannsókna sem báðar byggja á fimm þátta velfarnaðarlíkani Seligman, PERMA. Þar kemur skýrt fram að árangursþátturinn, að upplifa árangur starfs síns og fá staðfestingu þess að unnið sé til gagns, kemur lakast út. Tekin voru viðtöl við 16 grunnskólakennara í 12 skólum, í ársbyrjun 2025, umsjónar-, faggreina- og sérkennara. Viðtölin byggðu á spurningaramma með opnum spurningum og voru þau þemagreind í anda fyrirbærafræðilegra rannsókna.
Niðurstöður sýndu að grunnskólakennarar fá jákvæða endurgjöf, einkum frá nemendum en í minna mæli frá stjórnendum. Það kom skýrt fram í svörum þátttakenda að samskipti við nemendur eru ekki aðeins gefandi heldur eru þau hvetjandi og efla innri áhugahvöt kennara. Kennarar lýstu sterkum tengslum við nemendur, þar sem umhyggja og gagnkvæm tenging draga fram tilgang í starfi þeirra. Endurgjöf frá nemendum, oft óformleg, óbein og tilviljunarkennd, hefur djúp áhrif og er af kennurum metin sem viðurkenningin á vel unnu starfi. Líðan nemenda var talin besti mælikvarðinn á árangur.
Á hinn bóginn var það áberandi í svörum viðmælenda hversu takmarkaður stuðningur frá stjórnendum virtist vera. Þátttakendur töldu að stjórnendur hefðu oft takmarkaða innsýn í daglegt starf þeirra og að jákvæð endurgjöf frá þeim væri sjaldgæf. Í sumum tilvikum virtist skortur á viðurkenningu og virku samtali frá stjórnendum hafa letjandi áhrif á áhugahvöt kennara.
Heildarniðurstöður rannsóknarinnar draga fram þversögn: Þó að kennarar búi yfir sterkri innri áhugahvöt, sem einkennist af umhyggju fyrir nemendum, trú á eigin getu og gróskuhugarfari gagnvart áskorunum, vantar utanaðkomandi stuðning ,sérstaklega frá stjórnendum. Rannsóknin varpar ljósi á vanmetna vídd kennarastarfsins: þörfina fyrir reglulega, faglega og sértæka jákvæða endurgjöf frá stjórnendum.