Leiðsagnarsamtöl í skjóli trausts: Hugmyndafræðileg sýn leiðsagnarkennara og þróun fagvitundar kennaranema

Nafn nemanda: Gunnar Björn Melsted
Leiðbeinendur: Guðrún Ragnarsdóttir og Jóhann Örn Sigurjónsson

Ágrip/efni: Rannsóknir á alþjóðavettvangi sýna að leiðsagnarkennarar gegna lykilhlutverki í að tengja fræðilega kennaramenntun við kennslureynslu kennaranema. Markmið rannsóknarinnar er að varpa ljósi á hugmyndafræðilega sýn leiðsagnarkennara á leiðsögn kennaranema í íslenskum grunnskólum og skoða hvernig hugmyndir þeirra raungerast í leiðsagnarsamtölum sem fram fóru í kjölfar áhorfs. Fáar rannsóknir hafa áður beint sjónum að leiðsagnarsamtalinu sjálfu, sem þó er talið mikilvægasti þátturinn í leiðsögninni. Rannsóknin byggir á myndupptökum af fimm leiðsagnarsamtölum sem greind voru með greiningarramma hannaður af rannsakanda. Auk þess svöruðu leiðsagnarkennararnir, sem allir höfðu lokið formlegu námi í starfstengdri leiðsögn og kennsluráðgjöf, spurningalista um hugmyndafræðilega nálgun sína og aðferðir sem þeir beita í samtölum við kennaranema. Greiningin beindist að inntaki samtalanna, eðli endurgjafar, samskiptum og ígrundun. Helstu niðurstöður sýna að leiðsagnarkennararnir hófu samtölin með dæmum úr kennslustundinni sem þeir höfðu horft á og notuðu spurningar markvisst til að hvetja kennaranema til ígrundunar. Samtölin fjölluðu oft um samskipti í starfi og virtust stuðla að faglegri sjálfsskoðun kennaranema. Athygli vakti að í engu samtalanna mátti greina skýra notkun þeirra líkana sem leiðsagnarkennarar fá þjálfun í að nota í námi sínu, og erfitt reyndist að greina merki þess að þeir ýttu undir metahugsun (e. metacognition) kennaranema. Niðurstöðurnar sýna að þörf sé á frekari rannsóknum á leiðsagnarsamtölum yfir lengri tíma. Jafnframt vekja þær spurningar um hvort leiðsagnarkennarar muni eftir þeim verkfærum sem kynnt eru í náminu eða hvort þeim finnist þau jafnvel ógagnleg. Rannsóknin getur nýst til umbóta á námi í starfstengdri leiðsögn og kennsluráðgjöf, starfsþróun leiðsagnarkennara og til að efla faglega leiðsögn.