Höfundur: Helena Rós Einarsdóttir
Leiðbeinendur: Edda Óskarsdóttir og Helga Helgadóttir
Ágrip/Efni:
Líðan nemenda hefur lengi verið mér hugleikin í starfi sem verkefnastjóri stoðþjónustu í grunnskóla. Rannsóknir benda til þess að líðan nemenda fari versnandi og því mikilvægt að huga að þessum þætti í skólastarfi (Rannsóknir og greining, 2022).
Þessi rannsókn er starfendarannsókn framkvæmd í litlum grunnskóla úti á landi með áherslu á að skilja líðan og þarfir nemenda. Tilgangur hennar er að bæta líðan ungmenna til að þau geti náð sem bestum árangri í lífinu. Markmiðið var að efla innsýn mína og færni í að skilja líðan og þarfir nemenda til að ég geti stutt betur við nemendur í skólastarfinu og starfsfólk skólans í félags- og tilfinningakennslu. Ég rannsaka minn skilning og þær leiðir sem ég hef farið í stuðningi, en óbeinir þátttakendur eru starfsfólk og nemendur í skólanum mínum. Gagnaöflun var fólgin í rannsóknardagbók, vettvangsnótum og óformlegum samtölum mínum við einstaklinga í skólasamfélaginu. Rannsóknarspurningarnar voru tvær: Hvaða leiðir fer ég til að skilja betur líðan og þarfir nemenda minna og hvernig get ég deilt því sem ég læri með samstarfsfólki mínu?
Í gegnum rannsóknina öðlaðist ég betri skilning á að nærvera alls starfsfólks skiptir máli þegar kemur að stuðningi við líðan nemenda. Tilfinningafærni nemenda hefur mikil áhrif á hvernig þeir ná að tileinka sér námið og mikilvægt að hlusta á þarfir þeirra, styrkja tengsl og sýna umhyggju í verki þannig að nemendur upplifi að þeir tilheyri í skólanum sínum. Einnig var vöntun á heildstæðu námsefni í félags- og tilfinningafærni áberandi þáttur í rannsókninni og brýnir fyrir mér mikilvægi þess að móta stefnu í þeim þætti fyrir skólann til að auka samfellu í náminu.
Rannsóknin hefur sýnt fram á mikilvægi þess að huga vel að geðheilsu allra í skólasamfélaginu og byggja upp jákvæða menningu með það að leiðarljósi að öllum líði vel og geti blómstrað í sínu. Framtíðin er að veði.