Höfundur: Marit Davíðsdóttir
Leiðbeinandi: Eyrún María Rúnarsdóttir Sérfræðingur: Ingibjörg Vala Kaldalóns
Ágrip/efni: Vinátta er þýðingarmikil fyrir þroska barna og ungmenna, félagsleg tengsl og tilfinninguna fyrir að tilheyra. Vitað er að sum börn hafa verri aðgang að vinatengslum og börn eiga yfirleitt misauðvelt með að mynda og viðhalda vinatengslum. Íslenskar rannsóknir hafa t.d. bent til þess að börnum með erlendan uppruna gangi verr að eignast vini í meirihlutahóp og upplifi frekar stríðni og að vera ekki hluti af hópnum. Mikilvægt er að leitast við að ryðja úr vegi hindrunum í vináttumyndun hjá þeim hópi. Í því skyni er gagnlegt að skilja hvernig börn af fjölbreyttum uppruna, leysa úr félagslegum aðstæðum og hindrunum í félagasamskiptum.
Markmið rannsóknarinnar var að varpa ljósi á upplifun barna af vináttu, hvernig hugarfar endurspeglast í viðhorfum þeirra og hvernig það getur skapað leiðir til að ýmist takast á við hindranir og árekstra á sem uppbyggilegastan hátt eða ýtt undir frekari árekstra og hindranir. Kenningum Carol Dweck um hugarfar var beitt í verkefninu. Kannað var hvernig grósku- og festuhugarfar birtist í þrautseigju barna þegar þau tókust á við mótlæti. Tekin voru níu rýnihópaviðtöl við samtals nítján börn í fimmta, sjötta og sjöunda bekk. Notast var við markmiðaúrtak og þátttakendur því valdir með hliðsjón af vinatengslum og uppruna. Gögnin voru þemagreind en frumniðurstöður eru þær að börn á þessum aldri virðast hafa ríkjandi gróskuhugarfar gagnvart vináttusamböndum sínum, sem birtist helst í því að börn sem meta vináttu sína sem verðmæta eru líklegri til að fyrirgefa mistök og biðjast fyrirgefningar í kjölfar ágreinings. Festuhugarfar birtist helst í því að börn beita hefnigirni og refsingum í kjölfar árekstra og myndu slíta vináttu ef ágreiningur er ítrekaður. Vísbendingar voru um að þau börn sem að eiga styðjandi foreldra hafi meira gróskuhugarfar, séu félagsfærari og betri í samningaumleitan.
Vonast er til að niðurstöðurnar auki skilning á hlutverki hugarfars í vináttu og félagatengslum barna, svo hægt sé að aðstoða þau að efla félagslega virkni, tengsl og farsæld sína.