Höfundur: Sigrún Vatnsdal Bjarnadóttir
Leiðbeinandi: Anna Magnea Hreinsdóttir
Sérfræðingur: Hrönn Pálmadóttir
Ágrip/Efni:
Kópavogsbær hefur sett sér það markmið að innleiða réttindi barna í alla leik- og grunnskóla í samstarfi við UNICEF. Réttindaskóli UNICEF er hugmyndafræði og hagnýt leið til þess að innleiða lög um Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í leikskólum og hefur að markmiði að leggja Barnasáttmálann til grundvallar í öllum ákvarðanatökum og starfi. Auk þess eiga þessar áherslur að endurspeglast í samskiptum barna, kennara og annars starfsfólks.
Markmið rannsóknarinnar var að varpa ljósi á hvernig leikskólastjórar, í þeim fimm leikskólum Kópavogs sem innleitt hafa Barnasáttmálann og eru viðurkenndir Réttindaskólar, sjá fyrir sér að viðhalda áherslu á réttindum barna í daglegu starfi leikskólans, menningu og skólabrag. Tilgangur verkefnisins var að greina þær leiðir sem leikskólarnir, með leikskólastjóra í fararbroddi, nýta sér til að festa í sessi lýðræðislegt leikskólastarf þar sem réttindi barna eru höfð að leiðarljósi. Í rannsókninni eru því skoðaðir þættir í skólabrag og menningu þessara leikskóla. Má þar nefna hvernig aukið lýðræði birtist í samskiptum stjórnenda og starfsfólks og hvaða áhrif verkefnið hefur á viðhorf starfsfólks gagnvart börnum og réttindum þeirra. Rannsóknin byggir á eigindlegri aðferðafræði þar sem tekin voru einstaklingsviðtöl við fimm leikskólastjóra í Kópavogi.
Helstu niðurstöður rannsóknarinnar sýna að mikilvægt er að dreifa ábyrgðinni, að allt starfsfólk leikskólans þurfi að taka þátt í og sýna verkefninu áhuga. Þá sýna niðurstöður jafnfram mikilvægi samstarfs milli leikskóla og UNICEF. Að þróa þátttöku barna er mikilvægur hlekkur í réttindaskólakeðjunni og allir leikskólastjórarnir gerðu því hátt undir höfði í rannsókninni. Þeir lögðu mikla áherslu á að börnin hefðu sitt að segja um starfið í leikskólanum. Þá sýna niðurstöður rannsóknarinnar að tímaskortur og mannekla er helsta hindrunin þegar kemur að því að viðhalda verkefni eins og Réttindaskólaverkefninu. Allir leikskólastjórarnir töluðu um tímaskort eða tímaleysi, manneklu og/eða mannabreytingar sem hömlur í því að festa verkefnið í sessi.
Að réttindavæða alla leikskóla Kópavogs er stórt verkefni að ráðast í en þarft engu að síður. Í síbreytilegu samfélagi hraða, tækni og samskiptahátta er mikilvægt að kenna börnum til lýðræðis í lýðræði, um réttindi sín og lífið sjálft. Rannsakandi er sjálfur deildarstjóri í leikskóla í Kópavogi sem ekki hefur farið af stað í þessa vegferð sem Réttindaskólaverkefnið er en sér sannarlega tækifærin í því og hlakkar til.