Höfundur: Rakel Steingrímsdóttir
Leiðbeinendur: Edda Óskarsdóttir og Susan Rafik Hama
Ágrip/Efni:
Staða nemenda með erlendan bakgrunn í íslensku samfélagi hefur verið til skoðunar undanfarið og náms- og félagsleg staða þeirra ekki talin ásættanleg. Kennarar eru í lykilhlutverki í skólasamfélaginu og með sameinuðu átaki geta þeir lyft grettistaki.
Í rannsókninni voru samskipti kennara í grunnskólum á höfuðborgarsvæðinu skoðuð í tengslum við nemendur með erlendan bakgrunn og tilgangurinn var að draga fram hvernig samskiptin geti stutt við farsæla inngildingu nemenda í samfélagið.
Skoðuð var sýn kennara á hugtakið inngilding og hvað þeir telja mikilvægt við inngildingu nemenda með erlendan bakgrunn í íslenskt samfélag og skóla. Greind voru samskipti á milli kennara, heimila og skóla og dregið fram það sem kennarar telja að þurfi að vera til staðar til að styðja við árangur og líðan nemenda. Jafnframt voru tengsl nemenda með erlendan bakgrunn skoðuð í víðu samhengi og viðhorf kennara og skólasamfélagsins.
Notast var við eigindlega rannsóknaraðferð með því að taka átta viðtöl við kennara í fjórum skólum á höfuðborgarsvæðinu, eitt við ÍSAT kennara og eitt við umsjónarkennara í hverjum skóla.
Helstu niðurstöður rannsóknarinnar voru að mikill vilji er meðal kennara að tengja nemendur og foreldra með erlendan bakgrunn í samfélagið. Hugtakið inngilding er ekki öllum kennurum þjált og þar þarf að gera betur, efla má skilning allra kennara á inngildandi skólastarfi til að styðja við sameiginlega sýn þeirra. Niðurstöður benda ennfremur til þess að mikilvægt er að stjórnendur skapi ramma fyrir samvinnu og fræðslu fyrir kennara um málefni sem snýr að nemendum með erlendan bakgrunn, stefna skólans sé öllum skýr og verklagsreglur samræmdar í skólum.