Höfundur: Selma Dögg Björgvinsdóttir
Leiðbeinandi: Auður Magndís Auðardóttir Sérfræðingur: Margrét Valdimarsdóttir
Ágrip/efni: Stuðningur við foreldrahlutverk fanga er mikilvægur í ljósi þess að stór hluti foreldra sem afplána fangavist hafa orðið fyrir misbresti í sínu eigin uppeldi á æskuárum, með tilheyrandi neikvæðum afleiðingum á þá sem foreldra. Börn sem verða fyrir misbresti í uppeldi, líkt og að upplifa áföll, vanrækslu eða fangelsun foreldris eru í meiri hættu á að farnast verr í lífinu og leiðast út á sömu braut. Því er það á ábyrgð stjórnvalda að tryggja viðeigandi aðstoð og þjónustu fyrir foreldra þannig að börn þeirra hagnist af.
Markmið rannsóknarinnar var að kalla eftir sýn foreldra, sem dvalið hafa í fangelsi, af þeim stuðningi sem býðst í afplánun og hvernig staðið er að undirbúning fyrir foreldrahlutverkið að fangavist lokinni. Til að dýpka niðurstöður þótt einnig mikilvægt að heyra upplifun og reynslu þeirra sem starfað hafa í fangelsismálum á Íslandi. Meginniðurstöður eru þær að líkindi voru meðal æsku foreldranna sem tóku þátt. Æska þeirra litaðist af misbresti í uppeldi líkt og áföllum, vanrækslu, bágum uppeldisháttum, slitróttri skólagöngu þar sem þeir upplifðu sig sem „óþekka krakkann“ eða „svartan sauð“. Misbrestir í uppeldi viðmælenda leiddu til áhættuhegðunar og afbrotahegðunar með þeim afleiðingum að þeir frömdu refsiverðan verknað og var gert að sæta fangelsisvist á fullorðinsárum. Viðmælendur greindu frá að enginn markviss stuðningur stendur til boða fyrir foreldra, hvorki í formi foreldrafræðslu, uppeldisráðgjafar eða annara námskeiða tengda foreldrahlutverkinu og sömuleiðis að enginn undirbúningur stendur til boða um hvað koma skal að afplánun lokinni. Undirbúningur er mikilvægur til að stuðla að farsælli endurkomu út í samfélagið á ný og dregur sömuleiðis úr líkum á endurkomu þeirra í fangelsi.
Af niðurstöðum má ráða að kortleggja þurfi þjónustuþörf þessa hóps, sem oft á tíðum kemur úr hörðum bakgrunni, eiga við fjölþættan vanda sökum þess og þurfa stuðning og leiðsögn í foreldrahlutverkinu, með það að leiðarljósi að draga úr skaða sem þeirra eigin börn verða fyrir. Einnig er þörf á sérfræðingum úr velferðarkerfinu, líkt og sérstökum barnafulltrúum sem hefðu það hlutverk að styðja og hlúa að börnum fanga, enda hafa börn fanga verið kölluð „hin þöglu fórnarlömb fangelsisvistar“. Þegar öllu er á botninn hvolft er þörf á að styðja við foreldra, svo að börn þeirra verði fyrir minni skaða af völdum fangelsun foreldris, sem þar af leiðandi dregur úr líkum á keðjuverkun fangelsunar.