Þegar börnin fá að ráða ferðinni: Starfendarannsókn um vettvangsferðir í leikskóla

Höfundur: Margrét Sæmundsdóttir

Leiðbeinandi: Anna Magnea Hreinsdóttir
Sérfræðingur: Kristín Norðdahl

Ágrip/Efni:

Rannsókn þessi er starfendarannsókn sem framkvæmd var í leikskóla á höfuðborgarsvæðinu. Fræðilegur bakgrunnur rannsóknarinnar byggir m.a. á hugmyndum Reggio Emila um að barn eigi að vera virkur þátttakandi í námi sínu og að hvetja eigi það til að rannsaka umhverfi sitt, skapa og læra í gegnum uppgötvanir, bæði eitt síns liðs og í samstarfi við fullorðna (Rinaldi, 2005). Markmið rannsóknarinnar er að þróa eigin starfshætti varðandi vettvangsferðir sem farnar eru á vegum leikskólans með ígrundunn á starfi og jafnframt að leggja til breytingar sem stuðla að þátttöku barna og auknum námstækifærum. Tilgangur rannsóknarinnar er að auka þátttöku barnanna í undirbúningi og framkvæmd vettvangsferða, sem og úrvinnslu eftir ferðirnar. Rannsóknarspurningin sem leitast var við að svara í starfendarannsókninni var: Hvernig get ég bætt færni mína í starfi til þess að auka virka þátttöku barna í undirbúningi, framkvæmd og úrvinnslu vettvangsferða í leikskólanum sem ég starfa í?

Helstu niðurstöður rannsóknarinnar eru að samskiptahættir kennara við börn geta ýmist aukið eða hindrað þátttöku þeirra í vettvangsferðum. Börn voru áhugasamari þegar kennarar lögðu sig fram við að fylgja áhuga þeirra og fleiri tækifæri til merkingabærs náms sköpuðust. Að undirbúa börnin vel fyrir vettvangsferðir getur haft jákvæð áhrif á getu þeirra til þátttöku. Einnig kom í ljós að mikilvægt sé að kennarar temji sér að einblína á ferlið og námið sem þar á sér stað en ekki að úr því verði sjáanleg afurð. Með rannsókninni er ætlunin að undirstrika mikilvægi þess að hlusta á raddir barna og gefa þeim tækifæri til að hafa áhrif á nám sitt með margvíslegum hætti.