Útvalin eða útilokuð: Valferli og aðgengi nemendaráða í íslenskum grunnskólum

Höfundur: Aníta Jasmín Finnsdóttir

Leiðbeinendur: Eva Harðadóttir og Auður Magndís Auðardóttir

Ágrip/Efni:

Í nútímasamfélagi hefur samfélagsleg þátttaka barna aukist samhliða auknu lýðræði nemenda innan skólakerfisins. Val á nemendum í nemendaráð er mikilvægur þáttur í lýðræðislegri þátttöku í skólastarfi. Þó hefur skólakerfið tekið breytingum á síðastliðnum áratugum þar sem félagsleg lagskipting, aðgreiningarþörf og markaðsvæðing hefur aukist og skólinn er orðinn merkingabær vettvangur stéttaskiptingar. Í þessari rannsókn voru tekin fimm rýnihópaviðtöl við yfir áttatíu grunnskólanemendur sem sitja í núverandi nemendaráðum íslenskra grunnskóla. Markmið rannsóknarinnar er að kanna hvernig félagslegur bakgrunnur nemenda endurspeglast í valferli nemendaráða íslenskra grunnskóla. Þar að auki er rannsakað hvort nemendaráð séu vettvangur þar sem valdauppbygging samfélagsins endurspeglist. Rannsóknarspurningarnar tvær eru: (1) Hvernig endurspeglar val á nemendum innan nemendaráða félagslegan bakgrunn þeirra? (2) Hverjir hafa völd innan vettvangs nemendaráða? Notast var við kenningar Lauru Lundy og Pierre Bourdieu sem greiningartæki í rannsókninni.

Með þemagreiningu viðtalanna myndaði rannsakandi þrjú meginþemu: (1) Hefðbundið valferli nemendaráða speglar félagslega aðgreiningu, (2) Völd innan nemendaráða eru ekki jöfn milli allra meðlima, (3) Nemendaráð er vettvangur sem veitir útvöldum nemendum félagslegt og menningarlegt forskot. Þemun varpa ljósi á það hvernig nemendaráð, líkt og skólinn, er vettvangur fyrir endursköpun stéttarskiptingar þar sem ráðandi hópar styrkja stöðu sína enn fremur. Niðurstöður rannsóknarinnar samræmast þróun menntakerfisins þar sem aðgreiningarþörf nemenda og skóla hefur aukist. Nemendur með verðugan veruhátt og táknrænt auðmagn hafa forskot á aðra samnemendur sína að aðgengi nemendaráða sem og að valdi innan nemendaráðsins. Rannsóknin varpar þar með ljósi á félagslegar skekkjur er varða lýðræði barna og ungmenna á borð við val og þátttöku innan menntavettvangsins og hvernig félagsleg lagskipting endurskapast í gegnum kynslóðir. Rannsóknin undirstrikar þörfina á gagnrýnni endurskoðun á valferli innan íslenskra grunnskóla og að mikilvægt sé að finna nýjar og fjölbreyttari leiðir til að tryggja öllum börnum raunverulegt tækifæri til lýðræðislegrar þátttöku innan menntavettvangsins óháð félagslegum bakgrunni þeirra og valdastöðu innan og utan veggja skólans.