Höfundur: Þórey Birta Sigurjónsdóttir
Leiðbeinandi: Valgerður S. Bjarnadóttir
Sérfræðingur: Bergljót Þrastardóttir
Ágrip/efni:
Markmið þessarar rannsóknar er að varpa ljósi á áskoranir og tækifæri við innleiðingu laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna (nr. 86/2021), frá sjónarhorni tengiliða í grunnskólum. Farsældarlögin hafa nú verið í innleiðingarferli frá gildistöku þeirra í janúar árið 2021. Markmið laganna er að byggja upp heildstætt þjónustukerfi til að hægt sé að veita börnum og foreldrum rétta þjónustu á réttum tíma frá réttum aðila. Með menntastefnu í anda skóla án aðgreiningar hefur grunnskólinn fengið það hlutverk að mæta fjölbreyttum og flóknum þörfum barna. Þetta hefur gert það að verkum að hlutverk grunnskólans er orðið mun víðtækara en áður fyrr og kallað á heildrænni nálgun til að mæta vanda barna. Með farsældarlögunum varð til hlutverk tengiliða sem eru skipaðir í öllum grunnskólum og eiga þeir að veita utanumhald um mál nemenda sinna sem hafa aukna þjónustuþörf.
Notast var við eigindlega rannsóknaraðferð þar sem tekin voru sjö einstaklingsviðtöl við tengiliði farsældar í sjö grunnskólum í tveimur fjölmennum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu. Þemagreiningu var beitt við greiningu gagna. Helstu niðurstöður gefa til kynna að eftir að innleiðing laganna hófst hefur aukið utanumhald og eftirfylgni orðið með málum barna. Boðleiðir milli kerfa eru aðgengilegri og styttri en áður og góð samvinna virðist einkum vera á fyrsta stigi. Jafnframt sýndu niðurstöður skort á samvinnu við utanaðkomandi kerfi líkt og barnavernd og heilsugæslu. Aukið álag er vegna samtvinnun hlutverka tengiliða og óljós lína á milli verksviða tengiliða og málstjóra. Jafnframt benda niðurstöður til þess að ein helsta áskorunin sé skortur á úrræðum sem kemur í veg fyrir að hægt sé að veita börnum fullnægjandi þjónustu. Vonast er eftir því að niðurstöðurnar geti varpað ljósi á helstu áskoranir við innleiðingu samþættrar þjónustu í þágu barna, svo hægt sé að styðja við farsæld barna á sem skilvirkastan hátt.