„Við erum ennþá að fóta okkur“ Hlutverk og verkefni tengiliða við innleiðingu farsældarlaga

Nafn nemanda: Díana Ívarsdóttir
Leiðbeinendur: Guðrún Ragnarsdóttir og Eyrún María Rúnarsdóttir

Ágrip/efni: Þrátt fyrir aukna vitund og lagaleg úrræði eru börn enn berskjölduð fyrir aðstæðum sem hafa áhrif á líðan og þroska. Til að bregðast við þessum áskorunum tóku lög um samþætta þjónustu í þágu farsældar barna gildi árið 2022. Lögin skilgreina m.a. hlutverk tengiliða sem styðja börn og fjölskyldur við að sækja þjónustu. Markmið rannsóknarinnar er að fylgja eftir innleiðingu og framkvæmd laganna með áherslu á hlutverk tengiliða í leik- og grunnskólum með það að markmiði að greina áskoranir, það sem hefur gengið vel og það sem má betur fara á fyrstu þremur árum innleiðingar laganna.

Rannsóknin byggir á para- og einstaklingsviðtölum við þrjá fulltrúa sveitarstjórnar og sjö tengiliði í leik- og grunnskólum í einu hverfi á höfuðborgarsvæðinu. Niðurstöðurnar benda til þess að hlutverk tengiliða er krefjandi og margþætt og kalli á skýra verkaskiptingu og stuðning. Tengiliðir gegna lykilhlutverki í samskiptum milli barna, foreldra og fagfólks, samhæfa þjónustu og styðja við þverfaglegt samstarf. Upplifun þeirra af hlutverkinu var breytileg eftir skólastigum og mótaðist af aðgengi að úrræðum sem og ólíkri stofnanalegri umgjörð. Þátttakendur lýstu marglaga samskiptum og samstarfi sem oft fór út fyrir lögbundið hlutverk þeirra.

Þrátt fyrir almenna ánægju með lögin kom fram að langt væri í land með að tryggja farsæld barna. Þátttakendur bentu á kerfislæga veikleika svo sem skort á úrræðum, biðlista, óljósa verkaskiptingu og takmarkað aðgengi að þjónustu. Niðurstöðurnar sýna einnig gjá milli stjórnsýslustiga sem torveldar samskipti og vinnu að markmiðum laganna.

Fræðilegt framlag rannsóknarinnar felst í því að varpa ljósi á hvernig innleiðing laganna birtist í daglegu starfi á vettvangi og hvernig lagaleg hlutverk fagfólks mótast innan samþættri þjónustu. Rannsóknin dregur jafnframt fram spennu milli stefnumótunar og framkvæmdar og hefur hagnýtt gildi fyrir stefnumótandi aðila, fagfólk og fjölskyldur.