Við erum kjarninn. Starfssamfélög í grunnskóla

Höfundur: Særún Rósa Ástþórsdóttir

Leiðbeinandi: Hróbjartur Árnason

Ágrip/Efni:

Meginviðfangsefni rannsóknarinnar er að skoða starfssamfélög kennara og fagfólks í grunnskóla með sérstakri áherslu á hlutverk deildarstjóra í því samhengi. Skoðuð voru tvö starfssamfélög í grunnskóla og rýnt í starf deildarstjóra í leiðandi hlutverki innan þeirra, með ígrundun og dagbókarskrifum. Rannsóknin er unnin með aðferðum starfendarannsókna, þar sem deildarstjórinn rýnir í eigið starf og starf starfssamfélaganna. Tekin voru viðtöl við fimm þátttakendur í starfssamfélögum á mismunandi þróunarstigum og samstarf innan þeirra skoðað. Deildarstjórinn var þátttakandi í starfssamfélögunum og aflaði gagna með upptökum af fundum og samtölum við þátttakendur. Öll þessi gögn nýttust svo við ígrundun.

Í rannsókninni er samstarf og fagleg þróun kennara og fagfólks skoðað í ljósi kenninga um nám fullorðinna og stuðst við rannsóknir Knud Illeris um þrjár víddir náms. Þegar fjallað er um starfssamfélög er stuðst við kenningar Etienne Wenger og Jean Lave sem skilgreindu hugtakið og hafa fjallað um myndun og þróun starfsssamfélaga í víðu samhengi. Wenger og Lave (1991) skilgreina hugtakið starfssamfélag sem hóp fólks sem hefur sameiginlegan áhuga eða ástríðu fyrir tilteknu viðfangsefni og lærir í gegnum samskipti meira um efnið (Lave & Wenger, 1991). Í rannsókninni er sjónum beint að því með hvaða augum kennarar líta þátttöku sína í starfssamfélagi, með tilliti til faglegrar starfsþróunar. Lögð er áhersla á að skoða hvernig deildarstjóri í grunnskóla getur stuðlað að og stutt við starfssamfélög kennara og fagfólks, hvaða áskoranir eru fyrir hendi og hvernig deildarstjóri getur best mætt þeim áskorunum.

Niðurstöður gefa vísbendingar um að kennurum og fagfólki þyki þátttaka í starfssamfélagi gagnleg leið til þess að efla faglega þekkingu sína, sjálfstraust og áræðni í starfi. Starfssamfélög séu góður vettvangur fyrir kennara og fagfólk í grunnskólum til þess að deila hugmyndum, ráðum og reynslu og læra saman. Hlutverk deildarstjóra getur verið veigamikið í þessu samhengi. Í gegnum starf sitt hefur deildarstjóri tækifæri til að koma auga á og styðja við möguleg starfssamfélög innan skólans sem dýrmæta leið til þess að stuðla að faglegri starfsþróun kennara og fagfólks. Deildarstjóri getur stutt við starfssamfélög með ýmsum hætti, m.a. með því að stuðla að því að skapa æskilegar aðstæður þar sem samfélög geta myndast, vaxið og þroskast.