Nafn nemanda: Emilía Örlygsdóttir
Leiðbeinandi: Kristín Norðdahl
Sérfræðingur: Bryndís Gunnarsdóttir
Ágrip/efni: Rannsókn þessi til M.Ed. prófs í menntunarfræði leikskóla er starfendarannsókn sem byggir meðal annars á kenningum um staðtengt nám barna og virknikosti og áherslu á mikilvægi leiks, náms og hreyfingar úti við fyrir vellíðan og nám barna. Í rannsókninni skoða ég gildi mikillar útiveru, markvissrar hreyfingar og náms í nærumhverfinu fyrir vellíðan, nám og meðvitund fimm ára barna. Skólaárið sem rannsóknin stóð yfir fór ég með barnahóp út hverjum morgni, á náttúruleg svæði í borginni, á borgarleikvellina og á söfn og sýningar. Eftir hádegi unnum við svo verkefni inni í skólanum sem tengdust starfinu sem við unnum úti um morguninn. Gagnaöflun fólst í skrifum rannsóknardagbókar, þar sem ég skráði hjá mér hvað við gerðum og hvernig mér fannst það ganga, samtölum við samkennara minn um hans upplifun af starfinu hjá okkur og hálfopnum samtölum við börnin sem þátt tóku til þess að fá þeirra sjónarhorn á það sem við vorum að gera. Helstu niðurstöður rannsóknarinnar eru að útinám í nærumhverfinu hafði jákvæð áhrif á vellíðan og gleði, samskipti og einbeitingu, vöxt og valdeflingu barnanna með aukinni hreysti og hæfni, styrk og þrautseigju, sjálfstrausti og sjálfstæði og meðvitund barnanna um nærumhverfi sitt og samfélag. Einnig kom í ljós að í verkefninu fólst mikill lærdómur og tækifæri, bæði fyrir börn og kennara. Börnin sem tóku þátt í rannsókninni lærðu mikið um sig sjálf, nærumhverfi sitt og samfélag auk þess sem geta þeirra á ýmsum sviðum jókst. Börnin valdefldust með þátttöku sinni og fundu að þeirra framlag og raddir skiptu máli.