Vitsmunaleg áskorun og samræða í kennslu samfélagsgreina á unglingstigi

Höfundur: Victor Gísli Elísabetar Skúlason

Leiðbeinandi: Anna Kristín Sigurðardóttir

Ágrip/Efni:

Tilgangur þessarar rannsóknar var að leggja mat á vitsmunalega áskorun í kennslu samfélagsgreina í 8. bekk grunnskóla. Jafnframt var litið til þess að hvaða marki ýtt er undir eða dregið úr vitsmunalegri áskorun nemenda í gegnum samræðu. Gagna var aflað með myndupptökum í kennslustundum hjá níu samfélagsgreinakennurum sem starfa í grunnskólum sem dreifast um landið. Greining gagna leiddi í ljós að talsvert rými er til að gera betur varðandi vitsmunalega áskorun í viðfangsefnum nemenda í kennslu samfélagsgreina á ung-lingastigi. Algengt var að sjá verkefni byggja á minnisatriðum frekar en greiningum, túlkun texta, ályktunum eða hugmyndasköpun nemenda en þessi atriði hafa áhrif á vitsmunalega áskorun. Þannig greindist mikill meirihluti vitsmunalegrar áskorunar á lægri þrepum þess greiningarramma sem notaður var til greiningar (PLATO). Það sama á við um samræðuna, þar sem umtalsverður meirihluti myndhluta greindist á lægri þrepum. Þar sem vitsmunaleg áskorun og samræða í skólastofunni greindust á hærri þrepum greiningarrammans voru við-fangsefnin almennt verkefnastýrð og nemendamiðuð og ýtt var undir samræðu, í samvinnu við nemendur, auk þess sem skilaboðin um verklag einstakra verkefna voru skýr.

Efnisorð: Samfélagsfræði, vitsmunaleg áskorun, samræða í skólastofu.