Höfundur: Edda Rósa Gunnarsdóttir
Leiðbeinandi: Anna Magnea Hreinsdóttir / Sérfræðingur: Hróbjartur Árnason
Ágrip/efni: Foreldrar bera ábyrgð á barni sínu og bera skyldu til að senda barnið í grunnskóla frá sex ára til sextán ára aldurs. Samstarf heimila og skóla er mikilvægt til þess að grunnskólagangan heppnist vel. Flest börn á Íslandi fara í leikskóla þar sem dagleg samskipti eru á milli foreldra og kennara. Þegar í grunnskólann er komið verða börnin mjög fljótt að verða sjálfstæð og finna leiðir sjálf í gegnum skólakerfið. Þá er mikilvægt að þau búi að góðum undirbúningi að heiman og reynslu úr leikskólanum með öðrum börnum og geti byggt ofan á þá reynslu.
Markmið rannsóknar er að skoða, frá sjónarhorni foreldra, hvaða hæfni í hegðun barn þarf að búa yfir áður en það byrjar í grunnskóla, hvað foreldrar geta gert til að undirbúa barnið og þörf foreldra fyrir fræðslu og stuðning. Notast var við eigindlegar rannsóknaraðferðir í formi viðtala. Þátttakendur voru níu foreldrar, sex mæður og þrír feður, sex ára barna sem hófu grunnskólagöngu sína haustið 2023. Í rannsókninni var leitast við að svara eftirfarandi spurningum: Hvaða félags- og tilfinningafærni þarf barn að búa yfir þegar það hefur grunnskólagöngu að mati foreldra. Hvert er hlutverk foreldra í þeim undirbúningi og hvaða þörf hafa foreldrar fyrir fræðslu og stuðning í þessum undirbúningi?
Niðurstöður benda til að leikskólinn spili stórt hlutverk í undirbúningi félags- og tilfinningahæfni barna þar sem þau kynnast allskonar börnum sem hjálpar til við að undirbúa þau við upphaf grunnskólagöngu. Vináttan sem myndast í leikskóla skiptir miklu máli fyrir vellíðan barna við skil skólastiga að mati foreldra og foreldrar styðja svo við þessa vináttu og hjálpa til við að viðhalda henni.
Foreldrahlutverkið nær yfir ótal margt og mikil úrvinnsla fer fram á heimilum eftir leikskóla og grunnskóla barna. Þátttakendur töldu þörf á að hafa fræðslu fyrir foreldra með meiri markmiðasetningu og gefa foreldrum verkfæri tengt hegðunaruppeldi barna sinna. Einnig töldu þau mikilvægt að fá fræðslu um greiningar barna almennt m.a. svo að foreldrar gætu vitað hvernig má takast á við hegðun vina heima. Að lokum kom fram hugmynd hjá foreldrum um að hafa fræðslu eða kynningu fyrir foreldra áður en skólinn byrjar, jafnvel þegar börnin eru enn í leikskóla til að hrista foreldra- og barnahópinn saman.