Höfundur: Jón Haukur Hafsteinsson
Leiðbeinandi: Anna Kristín Sigurðardóttir Sérfræðingur: Börkur Hansen
Ágrip/efni: Að stýra starfi grunnskóla er mikið og ærið verkefni sem krefst mikils af þeim sem tekur sér það fyrir hendur. Starfsumhverfi skólastjóra hefur tekið töluverðum breytingum í gegnum árin og það orðið víðtækara og flóknara. Í þessari rannsókn er sjónum beint að skólastjórum nýrra grunnskóla en það viðfangsefni hefur lítið verið skoðað á Íslandi áður. Það er mikil fjárfesting að stofna og byggja upp nýjan grunnskóla. Skólastjóri gegnir lykilhlutverki í að innleiðing skólastarfs í nýrri skólabyggingu gangi vel og verði farsælt í nútíð og framtíð. Leitast var við að skoða nánar hlutverk skólastjóra í nýjum grunnskólum á Íslandi og kanna hver helstu viðfangsefni, tækifæri og áskoranir voru til staðar á fyrstu árum skólastarfsins í nýrri byggingu. Rannsóknarspurningar sem leitað var svara við voru:
- Hver eru helstu viðfangsefni skólastjóra nýrra grunnskóla, fyrstu árin frá stofnun hans?
- Hver eru helstu tækifæri og áskoranir sem mættu skólastjórum á þessum tíma?
Rannsóknin var eigindleg viðtalsrannsókn (e. qualitative research) byggð á sex einstaklingsviðtölum við skólastjóra sem hafa tekið þátt í uppbyggingu nýrra grunnskóla á síðustu sex árum. Niðurstöður rannsóknarinnar gefa ákveðna mynd af flóknu og krefjandi hlutverki skólastjóra nýrra grunnskóla. Skólastjórarnir lýstu svipuðum áskorunum í upphafskrefum starfsins, sem kollegar þeirra í rótgrónari skólum þurfa síður að takast á við. Mikið álag var á skólastjórunum á þessum tíma og voru þeir sammála um að þeir hefðu þurft skipulagðan og sérhæfðan stuðning. Mikilvægt er því að þróa skilvirkar leiðir til að styðja við skólastjóra, ekki aðeins í upphafi starfsferils þeirra heldur einnig sem hluta af langtíma þróun í starfi. Þrátt fyrir mikið álag, flóknar áskoranir og erfið verkefni voru skólastjórarnir sammála um að tækifærin við stofnun nýs grunnskóla væru einnig mörg. Niðurstöður gefa ágæta sýn á krefjandi hlutverk skólastjóra nýrra grunnskóla á upphafsárum starfsins og hvernig hægt sé að nýta þær í að styðja betur við þá skólastjóra sem taka að sér slíkt hlutverk í framtíðinni.