Höfundur: Elín Guðrún Tómasdóttir
Leiðbeinandi: Sara Margrét Ólafsdóttir / Sérfræðingur: Kristín Karlsdóttir
Ágrip/efni: Markmið rannsóknarinnar var að auka skilning á sýn barna með fjölbreyttan bakgrunn á nám sitt í gegnum leik. Tilgangurinn var að finna leiðir sem nýta má til að auðga nám barna í gegnum leik með því að byggja á fjölbreyttum bakgrunni þeirra, reynslu og þekkingu. Leikur er meginnámsleið barna, það nám sem á sér stað í leik þeirra byggir á fyrri reynslu þeirra og þekkingu. Börn fá tækifæri til að spegla eigin þekkingu og reynslu með öðrum börnum í leik og læra þannig af reynslu sinni og annarra. Rannsóknin byggir á eigindlegri rannsóknaraðferð og þátttakendur voru börn og starfsfólk í leikskóla á höfuðborgarsvæðinu. Leitað var eftir sjónarmiðum barnanna með myndbandsupptökum sem kveikju að samræðu, og þeim boðið að horfa á myndbandið með rannsakanda og ræða um leik sinn og nám. Þannig fengu börnin tækifæri til að útskýra og hafa áhrif á hvernig athafnir þeirra voru túlkaðar. Niðurstöður sýna að í leik notuðu börnin þá þekkingu og reynslu sem þau höfðu öðlast í nánasta umhverfi sínu. Börnin nýttu leikinn til að prófa sig áfram og túlka þekkingu sína og reynslu á ákveðnum fyrirbærum úr umhverfi sínu. Þau sögðust læra af öðrum börnum með því að horfa á hvernig aðrir gera og gera eins. Niðurstöður bentu auk þess til að börn sem skorti góða máltjáningu voru frekar útilokuð frá leik annarra barna. Til þess að börnin gætu verið virkir þátttakendur í leik með öðrum börnum þurftu þau að geta tjáð sig og gert sig skiljanleg við önnur börn þ.e. vera fær í samskiptum og samningaviðræðum. Niðurstöður rannsóknarinnar auka innsýn í leik barna og skilning á námi í gegnum leik, auk mikilvægi þess að laga starfshætti að þeim barnahópi sem í leikskólanum dvelur hverju sinni, veita börnum viðeigandi stuðning í leik svo öll börn upplifi fullgildi í samfélagi leikskóla.