Höfundur: Hallur Guðmundsson
Leiðbeinandi: Ólafur Schram / Sérfræðingur: Adam Janusz Switala
Ágrip/efni: Frá því fyrst var minnst á Tónmennt sem kennslugrein í Aðalnámskrá Grunnskóla hefur eðli kennslu í greininni breyst mikið. Raunar má halda því fram að breytingarnar hefðu þurft að haldast í hendur við breytingar á tónlist, framboði á tónlist og vinnsluaðferðum tónlistar. Til að byrja með setti menntamálaráðuneytið mikinn kraft í útgáfu námsefnis hjá Ríkisútgáfu Námsbóka – síðar Námsgagnastofnun og Menntamálastofnun. Það kennsluefni og ítarefni sem tónmenntakennarar hafa úr að spila í dag er stundum unnið misvel af þeim sjálfum og öðrum kollegum. Gjarnan eru tónmenntakennarar að finna upp sama hjólið aftur og aftur vegna þess að eldra efni sem til er í skólunum hentar þeim ekki eða uppfyllir ekki hæfniviðmið aðalnámskrár innan þess tímaramma sem þeim er ætlað að vinna. Það efni sem finna má til sölu á vef Menntamálastofnunar uppfyllir ekki að öllu leiti þær kröfur sem hæfniviðmið Menntamálaráðuneytisins í Aðalnámskrá grunnskóla segja til um. Í svokölluðum grunnfögum er ætlast til að ákveðið efni sé notað við kennslu en í greinum á borð við tónmennt liggur það í höndum kennara að „redda“ sér, sérstaklega á miðstigi og unglingastigi. Í þessu 30 ECTS eininga lokaverkefni til M.Ed gráðu í kennslu listgreina við Deild faggreinakennslu (Kjörsvið: Tónmennt), verður litið til þeirra kosta sem tónmenntakennarar hafa úr að velja hjá Menntamálastofnun við að uppfylla hæfniviðmið gildandi Aðalnámskrár grunnskóla frá 2011, greinasvið 2013. Rannsóknarspurning verkefnisins er: Að hvaða leiti uppfyllir Menntamálastofnun kröfur gildandi aðalnámskrár um hæfniviðmið í námsefnisframboði sínu í tónmennt og hvernig?