Höfundur: Lísbet Guðný Þórarinsdóttir
Leiðbeinandi: Gísli Þorsteinsson / Sérfræðingur: Skúlína Hlíf Kjartansdóttir
Ágrip/efni: Markmið þessa verkefnis var að þróa námsefni fyrir snillismiðjur í tölvustuddri hönnun og notkun þrívíddarprentara með áherslu á að efla 21. aldar færni grunnskólanemenda. Námsefnið gefur nemendum tækifæri til þess að þróa og raungera hugmyndir sínar með notkun tölvustuddrar framleiðslu og efla þannig skapandi, gagnrýna hugsun.
Við upphaf námsefnisgerðarinnar var leitað í fræðilegar heimildir sem tengdust viðfangsefninu. Leitað var álits starfandi kennara í snillismiðjum um ákjósanlegt innihald. Í framhaldi þessa hófst gerð námsefnisins. Verkefni voru útfærð, innlagnir þróaðar og leitað að heppilegum kennsluaðferðum. Viðfangsefnin voru síðan lögð fyrir hóp nemenda í snillismiðju grunnskóla þar sem höfundur starfar sem leiðbeinandi. Í upphafi verkefnisins var áhersla námsefnisins á að kenna nemendum tæknilega grunnþekkingu er tengdist tölvustuddri hönnun með því að nýta myndskeið sem sýndu notkun hugbúnaðarins. Þessi nálgun var of einhæf þar sem að sköpunarþátturinn varð útundan. Áhersla námsefnisins og innihald þróaðist því til að styðja við skapandi hugsun þar sem megin þungi verkefnanna var á hugmyndavinnu og hönnunarferli. Tölvustudd hönnun og notkun þrívíddarprentara var þá jafnhliða kennd, sem hentaði sem verkfæri til að raungera hugmyndir nemenda. Verkefnin er byggðu á þessari nýju nálgun voru lögð fyrir nýjan nemendahóp og þróuð áfram.
Þróun námsefnisins sýndi að mikilvægt er að gefa hönnunarferlinu nægilegt vægi og gefa nemendum frelsi til sköpunar sem gerir þau sjálfstæðari en í hefðbundnu skólastarfi. Þessi nálgun krafðist jafnframt meiri aga og ábyrgðar frá nemendum á eigin námi. Sú nálgun gerði námsmat hins vegar flóknara og nauðsynlegt var að þróa aðrar matsleiðir sem nemandinn tók þátt í. Í umfjöllun höfundar um námsefnið vísar hann í kenningar hugsmíðahyggjunnar og hugmyndir um að efla hönnunarhugsun hjá nemendum sem hann telur mikilvægt til að þróa hæfni í 21. aldar færni þeirra.