Viðhorf náttúruvísindakennara til náttúruvísindahluta Aðalnámskrár grunnskóla

Höfundur: Róbert Pettersson 

Leiðbeinendur: Haukur Arason og Meyvant Þórólfsson

Ágrip/efni: Markmið rannsóknarinnar var að kanna viðhorf, upplifun og notkun náttúruvísindakennara á náttúruvísindahluta núgildandi Aðalnámskrár grunnskóla. Jafnframt að rannsaka hvaða breytingar náttúruvísindakennarar myndu vilja sjá á honum. Segja má að Aðalnámskrá grunnskóla sé leiðarvísir og fyrirmæli stjórnvalda um hvernig og hvað skuli kenna í grunnskólum landsins. Kennarar sjá svo um að túlka Aðalnámskrána til að hægt sé að kenna eftir henni. Út frá þessum upplýsingum má segja að viðhorf og upplifun kennara á námskrám skipti sköpum þar sem það eru kennararnir sem vinna mest með hana. Árið 2013 tók núgildandi Aðalnámskrá grunnskóla að fullu gildi. Ljóst er að hún tók þó nokkrum breytingum frá þeirri fyrri sem var gefin út árið 1999. Því taldist þetta rannsóknarefni mikilvægt og áhugavert.

Rannsóknin var eigindleg þar sem notast var við hálfopin viðtöl. Við val á þátttakendum var leitast við að kalla fram sem fjölbreyttust viðhorf til námskrárinnar en jafnframt voru þátttakendur að hluta valdir út frá hentugleika. Tekin voru viðtöl við 8 einstaklinga sem hafa mikla reynslu af náttúruvísindakennslu. Niðurstöður sýndu að meirihluti viðmælenda reyndust tiltölulega ósáttir við náttúruvísindahluta núgildandi Aðalnámskrá grunnskóla. Niðurstöður sýndu einnig að notkun viðmælenda á námskránni var mismunandi. Að auki bentu niðurstöður til þess að meirihluti viðmælenda var óánægður með það námsmat sem Aðalnámskrá leggur til. Jafnframt myndu viðmælendur vilja sjá ákveðnar breytingar á námskránni og flestir sögðust vilja sjá nýja námskrá.

Miðað við niðurstöður verkefnisins þá mætti segja að það sé ákall um að endurskoða náttúruvísindahlutann. Notkun viðmælenda á námskránni er mismunandi, námsmatið er huglægt og innihaldið opið, vítt og til túlkunar. Þessi staða gæti skapað ósamræmi í náttúruvísindakennslu á Íslandi. Náttúruvísindahlutinn er í endurskoðun þegar þetta verkefni er framkvæmt, sú endurskoðun hlýtur að teljast mikilvæg miðað við óánægju viðmælenda. Spurning er þó hvort þessar endurbætur séu nægilegar og hvort það þurfi hreinlega ekki að fara í stærri aðgerðir.