Náttúruvísindanámskrár í skyldunámi: Greining og samanburður opinberra námskráa fimm landa

Höfundur: Sunna Rós Agnarsdóttir 

Leiðbeinendur: Haukur Arason og Meyvant Þórólfsson

Ágrip/efni: Í þessu verkefni eru opinberar náttúruvísindanámskrár fimm landa greindar og bornar saman. Opinberar námskrár endurspegla menntastefnu stjórnvalda og er ætlað að veita stuðning við gerð skólanámskráa og skipulagningu skólastarfs. Sökum yfirstandandi breytinga á núgildandi aðalnámskrá var ákveðið að Íslandi yrði sleppt í þessu verkefni en þó leitast við að greina og bera saman námskrár landa sem hafa tengingu við Ísland, svipuð samfélagsleg gildi og gera sambærilegar kröfur til menntunar. Slík vinna getur haft verulegt hagnýtt gildi fyrir alla þá er koma að hvers konar náttúruvísindanámskrárgerð, hvort sem um ræðir kennara, skólastjórnendur eða aðra hagsmunaaðila. Löndin sem um ræðir eru Skotland, England, Finnland, Noregur og Svíþjóð. Almenn umfjöllun um aðstæður á Íslandi er einnig fléttuð inn í fræðilegan hluta verkefnisins.

Verkefni þetta er heimildarannsókn þar sem rannsóknarvinnan byggist á greiningu fyrirliggjandi gagna. Markmiðið er að greina heildaruppbyggingu og hugmyndir nokkurra náttúruvísindanámskráa, inntak þeirra og nálgun á náttúruvísindi, og hvernig grunnhugmyndir náttúruvísinda út frá amerísku stöðlunum Next Generation Science Standards (NGSS) birtast í námskránum. Þá var voru námskrárnar einnig skoðaðar út frá uppbyggingu, námsmati, stuðningi við kennara, prófakerfum landanna með tilliti til samræmds námsmats og þátttöku þeirra í alþjóðlegu samanburðarrannsóknunum PISA og TIMSS. Fyrst var útbúinn greiningarrammi og hver námskrá greind fyrir sig og síðan voru námskrárnar bornar saman. Niðurstöður greiningarinnar sýna að meginatriði náttúruvísindanámskránna eru að einhverju leyti lík en þó er uppbygging, innihald og framsetning námskránna mjög ólík og mismunandi eftir löndum hvort lágmarkskennslutími í náttúruvísindum sé tilgreindur og þá hversu langur sá tími er. Ef litið er til hugmyndafræði Schiro (2013) þar sem námskrárgerðir eru flokkaðar í fræðigreinamiðaða, samfélagsmiðaða, nemendamiðaða og umbótamiðaða námskrá sýna niðurstöðurnar að í öllum námskránum má greina fleiri en eina námskrárgerð. Hins vegar birtist í flestum tilfellum skýr ríkjandi hugmyndafræði einnar námskrárgerðar innan náttúruvísindanámskrár hvers lands. Þá var mismunandi eftir löndum hvort upplýsingar um námsmat voru til staðar í náttúruvísindahluta námskránna og að hvaða marki þær studdu við starf kennara. Í öllum námskránum birtist þó skýr krafa um fagmennsku kennara í tengslum við nám og kennslu í náttúruvísindum. Samræmt námsmat á sviði náttúruvísinda var einungis að finna í tveimur löndum, Englandi og Svíþjóð, en öll löndin hafa nýlega tekið virkan þátt í PISA og flest þeirra einnig í TIMSS.