Notkun myndskeiða í náttúrufræðikennslu: Reynsla og viðhorf íslenskra kennara

Höfundur: Örn Bjartmars Ólafsson 

Leiðbeinandi: Svava Pétursdóttir / Sérfræðingur: Haukur Arason

Ágrip/efni: Markmið rannsóknarinnar var að varpa ljósi á notkun og áhrif myndskeiða í kennslu náttúrufræðigreina á Íslandi. Í gegnum blandaða rannsóknaraðferð, leitast rannsóknin við að greina hvernig íslenskir grunnskólakennarar nýta myndskeið í náttúrufræðikennslu og hvaða ávinningar og áskoranir fylgja slíku. Spurningakönnun um myndskeið í náttúrufræðikennslu svöruðu 76 náttúrufræðikennara sem kenna í 7. – 10. bekk og tekin voru viðtöl við fjóra kennara úr þessum hópi.

Niðurstöður sýna að allir þátttakendur nota myndskeið í kennslu sinni, með það aðalmarkmið að vekja áhuga nemenda og auðvelda skilning þeirra á flóknum vísindalegum hugtökum. Meirihlutinn hefur þó ekki notað myndskeið í vendikennslu, sem bendir til möguleika á frekari þróun og nýtingu í þeim efnum. Áberandi var fjölbreytni í vali á myndskeiðum, frá heimildarmyndum til fyrirlestra og tilraunamyndbanda, sem undirstrikar þörf fyrir fjölbreytt og viðeigandi kennsluefni.

Viðtölin leiddu í ljós að kennarar standa frammi fyrir áskorunum eins og tungumálaerfiðleikum og tæknilegum takmörkunum, en jafnframt sýndu þeir bjartsýni og frumkvæði við að leita lausna til að yfirstíga þessar hindranir. Þátttakendur lögðu áherslu á mikilvægi gæða og skýrleika myndskeiða, auk þess að þau væru stutt og hnitmiðuð til að halda athygli nemenda.

Rannsóknin undirstrikar mikilvægi myndskeiða sem kennslutækis í náttúrufræði og hvetur til frekari þróunar á aðgengilegu og viðeigandi efni á íslensku. Áframhaldandi rannsóknir og samstarf milli kennara, skólayfirvalda og íslenskra kvikmyndaframleiðenda gætu leitt til enn betri nýtingar myndskeiða í náttúrufræðikennslu, með það að markmiði að auðga námsferil nemenda og mæta þörfum þeirra í fjölbreyttu og síbreytilegu námsumhverfi.