Birtingarmyndir lærdómssamfélags á vettvangi frítímans

Höfundur: Viktor Orri Þorsteinsson

Leiðbeinendur: Oddný Sturludóttir og Steingerður Kristjánsdóttir Sérfræðingur: Anna Kristín Sigurðardóttir.

Fagmennska og forysta á vettvangi frítímans eru viðfangsefni þessarar eigindlegu rannsóknar sem varpar ljósi á birtingamyndir lærdómssamfélags í frístundaheimilum og félagsmiðstöðvum. Stuðst var við skilgreiningar á einkennum lærdómssamfélags í skólum, sem og skrifum fræðimanna um hvað einkennir lærdómssamfélag á vettvangi frítímans. Til að varpa ljósi á birtingarmyndir lærdómssamfélags á vettvangi frítímans voru tekin sex djúpviðtöl við reynda stjórnendur í frístundaheimilum og félagsmiðstöðvum á höfuðborgarsvæðinu. Til að greina gögnin var stuðst við þemagreiningu, með aðferðir Braun og Clarke til hliðsjónar. Niðurstöðurnar leiða í ljós að samhljómur er um birtingarmyndir lærdómssamfélags milli stjórnendanna og þeir lýsa starfsháttum og áherslum sem ríma vel við einkenni lærdómssamfélags fagfólks. Þar ber hæst sú mikla áhersla sem stjórnendur leggja á dreifða og styðjandi forystu og menningu sem styður við samstarf. Niðurstöður leiða einnig í ljós að stjórnendurnir leggja þunga áherslu á að vera leiðtogar jafningja og að tryggja starfsánægju. Þrjú þemu komu fram í greiningu gagnanna: Stjórnandinn sem leiðtogi jafningja sem valdeflir og treystir, starfsánægja og samskipti á síkvikum vettvangi og áskoranir við að byggja upp lærdómssamfélag á vettvangi frítímans. Niðurstöður rannsóknarinnar draga skýrt fram að það fylgja því áskoranir að þroska lærdómssamfélög á vettvangi frítímans. Þar risu hæst áskoranir á borð við að frístundastarf er unnið af hlutastarfsfólki sem fær lítinn sem engan undirbúningstíma til að sinna fagþróun og mikill meirihluti starfsfólksins er ekki með fagmenntun tengda starfinu. Draga má þann lærdóm af rannsókninni að birtingarmyndir lærdómssamfélags eru margar á vettvangi félagsmiðstöðva og frístundaheimila, þær bera einkenni sem eru sameiginleg lærdómssamfélagi fagfólks skóla en áskoranir stjórnenda á vettvangi frítímans eru töluverðar sökum eðli og umgjarðar starfsins. Rannsókn þessi er hin fyrsta sem skoðar lærdómssamfélag á vettvangi frítímans hér á landi. Hún er því gagnlegt leiðarljós fyrir hinn unga fagvettvang tómstunda- og félagsmálafræða og frístundastarfs, sveitarfélög, fagfélög og yfirvöld menntamála.