Höfundur: Svanhildur Anna Bragadóttir
Leiðbeinandi: Elsa Eiríksdóttir / Sérfræðingur: Guðrún Ragnarsdóttir
Ágrip/efni: Markmið rannsóknarinnar var að kortleggja þá hópa nýnema sem skráðu sig í bóknám og starfsnám á tímabilinu 1997–2017 og kanna hvaða breytingar áttu sér stað í samsetningu hvors nemendahóps fyrir sig, út frá bakgrunnsbreytunum kyni, aldri og uppruna. Jafnframt var ætlunin að kortleggja þróun brotthvarfs úr hvorri námsleið fyrir sig út frá bakgrunnsbreytunum kyni og uppruna. Meginmarkmið rannsóknarinnar var því að skerpa sýnina á stöðu starfsnáms á Íslandi. Unnið var úr fjórum talnasöfnum frá Hagstofu Íslands í excel töflureikni og notast við filter veltitöflur og veltirit til að greina gögnin og svara rannsóknarspurningunum. Því var unnið með megindlega rannsóknaraðferð í rannsókninni. Niðurstöðurnar sýna að staða bóknáms var mun sterkari á tímabilinu en staða starfsnáms og virtist styrkjast með hverju árinu. Það má sjá bæði á skráningum í og brotthvarfi úr hvorri námsleið fyrir sig. Mun fleiri karlkyns en kvenkyns nýnemar sóttu í starfsnám en kynjahlutföllin voru jafnari í bóknámi, sérstaklega undir lok tímabilsins. Langflestir nýnemar í bóknámi og starfsnámi voru á aldrinum 15 – 16 ára. Aldursdreifing dróst saman yfir tímabilið í bóknámi en var stöðugri og dreifðari í starfsnámi. Nýnemum af erlendum uppruna fjölgaði verulega á tímabilinu og skráðu sig, líkt og innfæddir, fremur í bóknám en starfsnám. Innflytjendur voru í meiri brotthvarfshættu en aðrir hópar og aldur við flutning til landsins hafði veruleg áhrif á námsgengi þeirra. Niðurstöður rannsóknarinnar gefa mikilvæga innsýn í stöðu starfsnáms á Íslandi og eru gagnlegar til að greina hvort tilraunir og átök menntayfirvalda til að efla hag starfsnáms á Íslandi hafi haft erindi sem erfiði.