Höfundur: Jónína Íris Valgeirsdóttir
Leiðbeinendur: Eva Dögg Sigurðardóttir og Lóa Guðrún Gísladóttir
Ágrip/Efni: Almennt fylgir foreldrahlutverkinu mikil ábyrgð, sem eykst enn frekar hjá foreldrum barna með greiningu á einhverfu. Þarfir þeirra eru flóknar, sem getur haft mikil áhrif á heimilislífið í heild sinni, og er nauðsynlegt að tryggja að öll börn innan heimilisins fái jafna athygli og umhyggju. Á sama tíma þurfa foreldrar að huga að eigin heilsu, jafnt líkamlegri sem og andlegri. Í ljós þess hvað líf fjölskyldna barna með einhverfu getur verið flókið og krefjandi er vert að skoða hvernig sé hægt að stuðla að bættri heilsu og aukinni hamingju fjölskyldumeðlima, svo allir finni fyrir öryggi og vellíðan innan heimilisins. Markmið þessarar rannsóknar var að varpa ljósi á þarfir fjölskyldna fyrir aukinn stuðning innan heimilisins, og hvers lags stuðningur væri hentugastur. Tekin voru sex hálfstöðluð viðtöl við feður sem allir áttu það sameiginlegt að eiga tvö börn á grunnskólaaldri, þar af annað með einhverfugreiningu. Fram komu þrjú meginþemu; að týnast í kerfinu, jafnir möguleikar systkina og föðurímynd. Niðurstöður rannsóknarinnar gáfu til kynna að mikilvægt sé að grípa þær fjölskyldur sem þurfa aukna aðstoð, þar með talið foreldra og systkini barna með einhverfu. Þátttakendur rannsóknarinnar greindu allir frá því að eiga þung heimili og að þeim reynist erfitt að sinna skyldum sínum jafn vel og þeir myndu vilja. Þar með talið að veita öllum börnum sínum jafna umönnun til að tryggja sem eðlilegasta þroskaframvindu. Þá voru þátttakendur samhljóma um að vilja aukna aðstoð í þeim tilgangi að geta veitt barninu með einhverfugreininguna meiri stuðning, að efla samböndin við hin börnin sín sem og að eiga meiri tíma fyrir sjálfan sig. Niðurstöður rannsóknarinnar varpa ljósi á nauðsyn þess að hlúa betur að fjölskyldum einhverfra barna í þeim tilgangi að auka vellíðan þeirra og efla jákvæð tengsl.