Áhrif stuðningsáætlunar með Beanfee táknstyrkjakerfi á námsástundun, líðan og skólasókn nemenda í 9. bekk með skólaforðun

Höfundur: Svandís Hjartardóttir 

Leiðbeinendur: Anna-Lind Pétursdóttir og Lilja Ýr Halldórsdóttir

Ágrip/Efni: Markmið rannsóknar var að meta áhrif einstaklingsmiðaðrar stuðningsáætlunar með Beanfee táknstyrkjakerfi og ráðgjöf til forráðamanna á líðan, námsástundun og skólasókn nemenda með skólaforðun. Þátttakendur voru þrír drengir í níunda bekk grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu með mikla fjarveru frá skóla. Auk þeirra tóku forráðamenn og umsjónarkennarar þeirra þátt. Rannsóknin hófst í febrúar og inngrip fyrir hvern þátttakenda stóð yfir í 2 til 11 vikur. Skólasókn var metin út frá skráðri mætingu þátttakenda í Mentor. Áreiðanleiki Mentorskráninga var metinn og reyndist 100% í samræmi við beinar athuganir rannsakanda. Virknimatsviðtöl voru tekin við forráðamenn, þátttakendur og kennara um birtingarmynd vandans og mögulega áhrifaþætti. Líðan þátttakenda var metin með Tilfinningalistanum (RCADS) og Skólaforðunarlistanum (SRAS-R).

Stuðningsáætlun var útbúin fyrir hvern þátttakanda, sem meðal annars fól í sér stutta ráðgjöf til forráðamanna um skólaforðun og helstu úrræði. Táknstyrkjakerfi var útbúið fyrir þátttakendur með smáforritinu Beanfee í samvinnu við forráðamenn og umsjónarkennara. Markmið um mætingu voru unnin í samráði við umsjónarkennara. Þátttakendur fengu táknstyrkja fyrir að ná markmiðunum og gátu skipt þeim út fyrir umbun hjá foreldrum í gegnum búð innan Beanfee. Búðirnar voru einstaklingsmiðaðar og útbúnar í samvinnu við þátttakendur og forráðamenn. Þátttakendur mátu líðan sína á skólamorgnum og yfir skóladaginn á kvarða frá 1-10 í Beanfee og forráðamenn mátu líðan barnanna að morgni skóladaga.

Notað var margfalt grunnskeiðssnið með stikkprufusniði til að meta áhrif inngrips á námsástundun, líðan og skólasókn. Niðurstöður sýndu að námsástundun jókst verulega hjá tveimur þátttakendum eða 78% og 75%, og lítillega hjá einum eða 10,3%. Inngrip hafði jákvæð áhrif á líðan hjá tveimur þátttakendum þar sem sjálfmat hækkaði um 15% og 66,6%, en líðan hélst nánast óbreytt hjá þeim þriðja. Mat á líðan með Tilfinningalistanum (RCADS) benti til minni einkenna kvíða og þunglyndis hjá öllum þátttakendum en fyrir inngrip. Skólaforðunarlistinn (SRAS-R) benti jafnframt til minni styrks skólaforðunar en fyrir inngrip. Skólasókn jókst hjá einum um 11%, en versnaði hjá einum um 155,2% og öðrum um 22%.

Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að einstaklingsmiðuð stuðningsáætlun með Beanfee táknstyrkjakerfi og ráðgjöf til forráðamanna geti haft jákvæð áhrif á námsástundun og líðan ungmenna með skólaforðun. Niðurstöður eru hins vegar óljósar þegar kemur að áhrifum inngrips á skólasókn. Mælt er með að hefja inngrip við skólasókn fyrr á skólaárinu, áður en utanaðkomandi þættir hafa neikvæð áhrif á skólasókn. Einnig er mælt með að veita foreldrum meiri stuðning en stutta ráðgjöf til að gera þeim betur kleift að fylgja eftir inngripi til að auka skólasókn barna með skólaforðun.