Úthlutun fjármagns til grunnskóla – Verklag sveitarfélaga og eignarhald skólastjóra

Höfundur: Haraldur Axel Einarsson 

Leiðbeinandi: Börkur Hansen

Sérfræðingur: Anna Kristín Sigurðardóttir

Ágrip/Efni: Markmið rannsóknarinnar er að varpa ljósi á mismunandi verklag sveitarfélaga við úthlutun fjármagns til grunnskóla og öðlast skilning á mikilvægi tengsla og samskipta milli aðila fjárveitingarvaldsins og skólastjóra. Ekki er til eitt úthlutunarlíkan né viðmið um úthlutun sem sveitarfélögum ber að nota. Eftirfarandi rannsóknarspurning lá því til grundvallar rannsókninni: Hvert er verklag sveitarfélaga við úthlutun fjármagns til reksturs grunnskóla og hvert er eignarhald skólastjóra í því ferli?

Til þess að svara rannsóknarspurningunni rýndi ég fyrirliggjandi gögn og tók viðtöl við fjóra fræðslustjóra eða sérfræðinga hjá fræðsluyfirvöldum og tíu skólastjóra í fjórum sveitarfélögum. Niðurstöður rannsóknarinnar benda til að fræðsluyfirvöld telji mikilvægt að nota fastmótað úthlutunarlíkan við ákvörðun um úthlutun fjármagns til grunnskóla. Eignarhald skólastjóra getur falist í gerð líkansins og endurskoðunar á því. Niðurstöðurnar benda til að samskiptin milli aðila séu opin og samstarfsmiðuð og hafi tekið jákvæðum breytingum á síðustu árum. Einnig að skólastjórarnir hafi tækifæri til þess að koma þörfum skólans á framfæri og geti beitt sér til þess að fá aukið fjármagn en að því fylgi jafnan aukin verkefni í skólanum. Niðurstöðurnar benda einnig til þess að skólastjórar hafi áhuga og hæfni til að sinna rekstrartengdum verkefnum og að reynsla frekar en menntun nýtist í þeim verkefnum. Enn fremur gefa niðurstöðurnar vísbendingar um að álag á skólastjóra sé að aukast þar sem verkefnum á þeirra borði fari fjölgandi.

Rannsóknir á úthlutun fjármagns til grunnskóla eru almennt af skornum skammti og það á einnig við hér á landi. Þessar niðurstöður má nýta til að þróa frekar verklag sveitarfélaga við úthlutun fjármagns til grunnskóla. Sveitarfélög geta nýtt þær við gerð fastmótaðs úthlutunarlíkans sem er sveigjanlegt og þar sem eignarhald skólastjóra felst í þátttöku við gerð líkansins og við reglulega endurskoðun á því. Einnig má nýta niðurstöður rannsóknarinnar til að draga úr álagi á skólastjóra við rekstrarleg viðfangsefni og styðja betur við þá í starfi.