Höfundur: Móses Helgi Halldórsson
Leiðbeinandi: Gísli Þorsteinsson
Ágrip/Efni: Tilgangur þessa verkefnis er varpa ljósi á nám í málm- og véltæknigreinum á Íslandi með það að augnamiði að styðja við námsþróun á sviðinu. Hafðar verða að leiðarljósi þær hugmyndir sem hafa verið áberandi í skólasamfélaginu varðandi samþætting námsgreina og 21. aldar færni.
Það er skoðun höfundar að nauðsynlegt sé að kanna hvort áherslur í starfsnámi séu í samræmi við kröfur samtímans og 21. aldar færni með tilliti til fjölbreytileika nemenda og krafna samtímans. Von hans er að verkefnið sýni hvort þörf sé fyrir samfellu milli námsgreina, samhliða víðtækari tengingu við 21. aldar færni.
Leitað var í fræðilegar heimildir til að kanna sögu starfsnáms með það að markmiði að fá skýrari mynd af tilurð þessa náms hér á landi. Starfsnám var einnig skoðað með hliðsjón af þróun og sögu þess náms í Finnlandi, Danmörku og Þýskalandi. Hér á landi var þróuð ferilbók fyrir starfsnám, eftir fyrirmynd frá Finnlandi. Danmörk varð fyrir valinu vegna sögulegra tengsla landanna tveggja. Danir hafa byggt sitt starfsnám á fyrirmyndum frá Þýskalandi. Þjóðverjar voru í fararbroddi í þróun handverks og starfsnáms um aldir þar sem þeir byggðu á gildakerfinu.
Í ritgerð þessari er greint frá rannsókn sem byggð var á orðræðugreindum viðtölum við framhaldsskólakennara. Rannsóknin fór fram í þremur framhaldsskólum. Sjónum var einkum beint að þróun starfsnáms þar með talið kennsluaðferða, aðbúnaðar og tengingar við raunaðstæður. Gögnum var safnað bæði í Reykjavík sem og á landsbyggðinni með einstaklingsviðtölum við starfandi kennara á málm- og véltæknisviði.
Niðurstöður þessarar rannsóknar benda til þess að verknámsskólar þurfi að taka mið af fjölbreyttari samsetningu nemenda. Skjánotkun skipar æ meiri sess í lífi nemenda og námið heldur ekki í við tækniþróun atvinnulífsins. Sveinspróf eru barn síns tíma; rafræn ferilbók nemenda hefur bæði kosti og galla og þarfnast nánari endurskoðunar.