Málfræðiefni á unglingastigi í grunnskóla. Úttekt á kennsluefni í málfræði á unglingastigi í grunnskóla og rannsókn á viðhorfi kennara til þess.

Höfundur: Sunna Kristín Gunnlaugsdóttir

Leiðbeinendur: Helga Birgisdóttir og Heimir Freyr Viðarsson

Ágrip/Efni: Umfjöllunarefni þessarar ritgerðar er kennsluefni í málfræði á unglingastigi í grunnskóla og viðhorf kennara til þess. Leitast verður við að svara þremur rannsóknarspurningum og eru þær eftirfarandi: Hverjar eru áherslurnar í málfræði í námsefni sem notað er í kennslu á unglingastigi í grunnskóla, hvert er viðhorf kennara til námsefnisins og hvaða breytingar myndu kennarar vilja sjá á námsefninu? Sá fræðilegi bakgrunnur sem er lagður til grundvallar rannsókninni byggist á birtingarmynd hugtaksins málfræði í stjórnvöldum og niðurstöðum fyrri rannsókna á málfræði innan skólakerfisins.

Í öðrum kafla er farið yfir þann fræðilega bakgrunn sem liggur til grundvallar rannsóknarinnar. Í kaflanum um námsefni var gerð úttekt á þremur mismunandi bókaflokkum sem kenndir eru í íslensku á unglingastigi. Það eru bókaflokkarnir: Skerpa, Málið í mark og Kveikjur, Neistar og Logar. Í úttektinni er m.a. farið yfir helstu áherslur hverrar bókar, hugmyndafræðina á bak við þær, innihald kennsluleiðbeininga ásamt uppsetningu bókanna. Í kafla fjörgur er farið yfir rannsóknarsnið og í kafla fimm eru niðurstöður kynntar. Í kafla sex eru umræður um niðurstöður ásamt tengingu við fræðilegan bakgrunn og ályktanir rannsakanda. Í lokin er rannsóknarspurningunni svararð.

Rannsóknin er eigindleg rannsókn sem byggir á viðtölum við þrjá kennara sem kenna íslensku á unglingastigi. Notaður var hálfopinn spurningarammi sem gaf rannsakanda tækifæri til að spyrja nánar út í upplifun kennara af námsefninu og hvaða áherslur væru í málfræðikennslu.

Niðurstöðurnar leiddu í ljós að kennararnir höfðu mismunandi skoðanir á því námsefni sem stæði til boða við málfræðikennslu. Allir kynntu þeir sér námsefnið við útkomu en voru sammála um að ekki sé komið neitt námsefni sem teljist hið eina rétta. Kennararnir voru allir sammála um að nemendur skorti grunn í málfræði og töldu einhverjir þeirra að málbreytingar geri það að verkum að sum hugtök séu minna í notkun en önnur og því ekki við hæfi að leggja áherslu á þau. Kennararnir vildu sjá meiri fjölbreytni í úrvali á efni og voru sammála um að erfitt sé að kenna málfræði þar sem nemendur hafi takmarkaðan áhuga á viðfangsefninu sem og að viðfangsefnið reynist oftar en ekki fremur  þurrt.

Af niðurstöðum rannsóknarinnar að dæma er ljóst að erfitt geti reynst að finna málfræðiefni sem glæðir áhuga nemenda enda er málfræði oftast nær kennd í gegnum vinnubókarvinnu og því þurfa kennarar að leita leiða til að gera kennsluna áhugaverða. Nemendur eru minna og minna að tengja við hugtökin og má draga þá ályktun að málbreytingar í samfélaginu spili þar inn í.