Áskoranir og bjargir leikskólastjóra sem starfa við ungbarnaleikskóla

Höfundur: Jóna Rún Gísladóttir

Leiðbeinendur: Sara Margrét Ólafsdóttir

Ágrip/Efni:

Hlutverk leikskólastjóra eru fjölþætt og oft og tíðum óljós, sem getur gert starfið bæði krefjandi og flókið. Leikskólastjórar þurfa því að takast á við fjölmargar áskoranir í starfi sínu en mikilvægt er að koma auga á og þekkja þau úrræði sem leikskólastjórar nýta til að takast á við þessar áskoranir. Með aukinni fjölgun barna yngri en tveggja ára í leikskólakerfinu telur rannsakandinn að þörf sé fyrir að beina sjónum sérstaklega að þessum vettvangi. Rannsóknir hafa bent á nauðsyn þess að veita leikskólastjórum í ungbarnaleikskólum stuðning til að tryggja gott starfsumhverfi þeirra og vellíðan yngstu barnanna. Fræðilegur grunnur rannsóknarinnar byggir á skilgreiningu á hlutverki leikskólastjóra og fyrri rannsóknum sem skoða áskoranir skólastjórnenda og þau úrræði sem þeir nýta sér. Rannsóknin fjallar um þær áskoranir sem leikskólastjórar í ungbarnaleikskólum glíma við í starfi sínu og þær bjargir sem þeir nota til að takast á við þær. Tilgangurinn er að varpa ljósi á hvernig hægt sé að styðja betur við leikskólastjóra í þessu sértæka hlutverki, bæta starfsskilyrði þeirra og stuðla að gæðum menntun og vellíðan ungra barna. Rannsóknarspurningarnar sem lagðar voru til grundvallar eru:  Hverjar eru megináskoranir sem leikskólastjórar á ungbarnaleikskólum takast á við í starfi sínu? Hvaða bjargir nýta leikskólastjórar til að mæta þessum áskorunum og stuðla að gæðum náms og vellíðan ungra barna? Til að svara þessum spurningum var stuðst við eigindlega rannsóknaraðferð þar sem tekin voru viðtöl við fjóra leikskólastjóra sem starfa við ungbarnaleikskóla á höfuðborgarsvæðinu. Helstu niðurstöður sýna að starfsmannamál eru meðal stærstu áskorana í starfi leikskólastjóranna, þar á meðal skortur á leikskólakennurum og mikil fjarvera vegna veikinda. Leikskólastjórunum þótti umhverfi leikskólanna einnig vera áskorun, annars vegar vegna þess að það væri óhentugt fyrir ung börn, bæði inni- og útisvæði og hins vegar voru of lítil rými fyrir börnin. Að auki reyndist skrifræði tímafrekt sem gerði það að verkum að leikskólastjórarnir höfðu lítinn tíma til að sinna faglegu leiðtogahlutverki sínu. Bjargir sem leikskólastjórar styðjast við fela einkum í sér að byggja upp traust og samvinnu innan leikskólans. Þeir leggja áherslu á mikilvægi þess að byggja upp gott samstarf við alla aðila í leikskólastarfinu, ásamt handleiðslu fyrir nýja leikskólastjóra sem veitir þeim leiðsögn frá reyndari leikskólastjórum og stuðningi frá rekstraraðilum eins og úrræði og ráðgjöf um ýmsa þætti tengt leikskólastarfinu. Að lokum kemur fram að jákvætt viðhorf leikskólastjóranna sjálfra veitir þeim mikilvæga björgun til að takast á við starf sitt. Rannsóknin hefur bæði fræðilegt og hagnýtt gildi, hún varpar ljósi á lykilþætti í starfi leikskólastjóra í ungbarnaleikskólum, sem geta nýst til að styrkja starfsaðstæður þeirra. Leikskólastjórar á ungbarnaleikskóli geta nýtt sér rannsóknina sem tæki til að skilja áskoranir sem geta fylgt starfinu og nýtt úrræðin, jafnframt veitir hún rekstraraðilum innsýn í starf leikskólastjórnenda og gefur þeim tækifæri til að veita þeim viðeigandi stuðning á vettvangi.