Höfundur: Sunna Líf Kristjánsdóttir
Leiðbeinendur: Guðrún Valgerður Stefánsdótttir og Ásta Jóhannsdóttir
Ágrip/Efni:
Fatlað fólk er jaðarsettur hópur í samfélaginu og er sérstaklega viðkvæmur þegar kemur að hamförum. Heimsfaraldurinn Covid-19 hófst í lok árs 2019 og kom hingað til lands í byrjun árs 2020. Rannsóknin er eigindleg lífssögurannsókn er markmið hennar þríþætt. Það felur í sér að greina hvernig sjálfræði birtist í lífi þátttakenda fyrir heimsfaraldurinn Covid-19, á meðan á honum stóð og eftir að honum lauk. Við greiningu rannsóknarinnar verða femínískar kenningar um aðstæðubundið sjálfræði hafðar að leiðarljósi. Þær snúast meðal annars um að greina þá þætti í umhverfinu sem ýmist stuðla að eða draga úr möguleikum jaðarsettra hópa til að þróa sjálfræði sitt (Laura Davy, 2015). Þættir Lauru Davy skiptast í þrennt en þeir fela meðal annars í sér að líta á fólk sem fullgilda einstaklinga og að þeir hafi aðgengi að ættingjum eða nánum aðilum sem geta veitt þeim jákvæðan stuðning. Lykilþátttakendurnir voru alls þrír og höfðu tveir þeirra áður búið á sólarhringsstofnun, auk þeirra tóku þátt ættingjar þeirra og persónulegir talsmenn. Til að fá sem besta mynd af lífi þátttakenda voru tekin sjö viðtöl við ættingja lykilþátttakenda, persónulega talsmenn og fleiri eftir því sem átti við. Auk þess voru gerðar þátttökuathuganir á heimilum lykilþátttakenda og rætt við þau, með aðstoð persónulegs talsmanns ef við átti. Viðtölin og athugasemdir sem skráðar voru úr þátttökuathugunum voru greind út frá kenningum um aðstæðubundið sjálfræði. Megin niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að allir lykilþátttakendur hafi upplifað einhverskonar skerðingu á sjálfræði sínu á lífsleiðinni. Sérstaklega varð mikil skerðing á sjálfræði lykilþátttakenda í heimsfaraldrinum Covid-19 sem í sumum tilfellum varir til dagsins í dag. Auka þarf áherslu, upplýsingagjöf og meðvitund á málefni fatlaðs fólks í samfélaginu til þess að skerðing við þennan hóp verði vonandi minni í framtíðinni.