Sögur út um allt: Innblástur í útinámi til stuðnings ritunarþjálfun

Höfundur: Bergljót Vala Sveinsdóttir

Leiðbeinandi: Guðrún Björg Ragnarsdóttir
Sérfræðingur: Jakob Frímann Þorsteinsson

Ágrip/Efni:

Ritun er einn af undirstöðuþáttum lestrarnáms sem þjálfa ætti samhliða öðrum grunnþáttum lestrar. Lestrarnám fer jafnan fram innan hefðbundinnar kennslustofu en með þessari greinargerð er leitast við að rökstyðja kosti þess að færa hluta lestrarnámsins út fyrir veggi skólans. Úti geta nemendur þjálfað orðaforða, leitað innblásturs út frá eigin áhugasviði og öðlast reynslu sem vinna má áfram með þegar snúið er til baka í skólastofuna. Afurð verkefnisins er námsefni sem stuðlar að samþættingu útináms og ritunar. Námsefninu er ætlað að styðja við lestrarnám með því að auka fjölbreytni í framboði ritunarverkefna og fjölga tækifærum til ritunarþjálfunar. Útinám hefur fjölmörg jákvæð áhrif á heilsu, þroska, nám og líðan barna en með notkun námsefnisins er stuðlað að aukinni útiveru nemendahópa. Nemendur geta þannig sótt innblástur og kveikjur í útiveru og unnið í kjölfarið fjölbreytt ritunarverkefni í skólastofunni. Fullbúin verkefni fyrir kennara eru aðgengileg öllum sem vilja nýta sér þau, bæði byrjendum og reyndum útikennurum, á þar til gerðri vefsíðu. Tekin voru viðtöl við reynda útikennara í þeim tilgangi að fá fram sjónarmið þeirra um notagildi námsefnisins og veita góð ráð til þeirra sem eru áhugasöm um að auka útinám í sinni kennslu. Niðurstaða viðtalanna var sú að námsefni sem þetta geti nýst á vettvangi og sé frumleg nálgun á lestrarkennslu og samþættingu hennar við útinám, auk staðfestingar um ótvíræða kosti útináms í skólastarfi.