„Tími er takmörkuð auðlind“: Greining á stafrænni hæfni háskólakennara við Háskólann á Akureyri

Höfundur: Helgi Freyr Hafþórsson

Leiðbeinandi: Svava Pétursdóttir
Sérfræðingur: Anna Kristín Sigurðardóttir

Ágrip/Efni:

Stafræn hæfni háskólakennara er orðin sífellt mikilvægari með aukinni samþættingu stafrænnar tækni í æðri menntun. Markmið þessarar rannsóknar var að greina núverandi stöðu stafrænnar hæfni og tækninotkunar meðal háskólakennara við Háskólann á Akureyri, kanna hvaða hindranir hafa áhrif á innleiðingu stafrænnar tækni og skoða tengsl milli stafrænnar hæfni, hindrana og tækninotkunar. Fræðilegur bakgrunnur byggðist á kenningum um félagslegt nám, algilda hönnun í námi og líkönum um stafræna hæfni eins og TPACK, SAMR og pýramída Millers.

Rannsóknin byggði á blönduðum aðferðum þar sem gögnum var safnað með spurningalista sem innihélt bæði lokaðar og opnar spurningar. Alls tóku 72 háskólakennarar þátt í rannsókninni og niðurstöður sýndu að meirihluti kennara (44,4%) mat stafræna hæfni sína sem „“í meðallagi““ og 41,7% sem „“frekar mikla““. Kennsla sýndi hæsta stig tækninotkunar (77,8% með mikla eða mjög mikla notkun) en minna var um tækninotkun í rannsóknum (56,9%) og stjórnun (40,3%). Fjórir meginflokkar hindrana voru greindir: Vinnuálag (2,71/5), Stofnanaleg stífni (4,01/5), Stuðningur frá stofnun (3,48/5) og Skortur á skýrum markmiðum (3,24/5). Mikilvæg bil komu fram milli mikilvægis stafrænnar hæfni (4,45/5) og tíma til að viðhalda henni (2,48/5) og milli getu til að samþætta tækni (3,82/5) og fenginnar þjálfunar (2,83/5). Þemagreining á opnum svörum leiddi í ljós þemu um skort á stofnanalegri stefnu, tímaskort, þörf fyrir aukinn stuðning, einangrun, jákvætt viðhorf til Kennslumiðstöðvar og þörf fyrir tengingu við kennslufræði.

Rannsóknin undirstrikar mikilvægi þess að taka mið af ólíkum þörfum háskólakennara, skapa umhverfi sem styður við stafræna þróun og efla félagslegt nám og samvinnu. Niðurstöðurnar leggja grunn að tillögum um innleiðingu heildstæðrar stefnu, endurskoðun á tímaskipulagi, einstaklingsmiðaða nálgun við starfsþróun, eflingu samvinnu og styrkingu tengsla milli stafrænnar hæfni og kennslufræði.