Höfundur: Lárus Sigurðarson
Leiðbeinendur: G. Sunna Gestsdóttir og Rúna Sif Stefánsdóttir
Ágrip/Efni:
Markmið rannsóknarinnar er að skoða hvort munur sé á andlegri líðan 12 ára knattspyrnustúlkna eftir getu þeirra í íþróttinni. Gögnin voru hluti af Stúlkur, knattspyrna og rannsókn á atgervi (SKORA), þátttakendur voru 138 stúlkur á höfuðborgarsvæðinu. Þjálfarar stúlknanna voru beðnir um að getuskipta stúlkunum í A, B og C hópa. Í hóp A voru valdar þær sem eru bestar í sínum aldursflokki, þær sem þurfa aðeins meiri þjálfun voru valdar í hóp B og þær sem eru nýbyrjaðar, eða ekki búnar að ná góðu valdi á íþróttinni og þurfa meiri þjálfun og reynslu, voru valdar í hóp C. Andleg líðan var metin með rafrænum spurningalista sem innihélt spurningar um æfingafíkn (EAI/Y), hversu gaman þeim fannst á æfingum, vellíðan (WHO-5), lífsánægju (Cantril-stigi), frammistöðukvíða (SAS-2) og almennan kvíða (GAD-7). Einnig var kannað hversu oft þær æfa knattspyrnu með liði og sjálfstætt. Notuð var einþátta dreifigreining til að greina mun milli hópa.
Niðurstöður leiddu í ljós marktækan mun á æfingafíkn, hversu oft þær æfa, hversu gaman þeim fannst á æfingu og vellíðan, á milli hópa. Hópur A var með mestu æfingafíknina og hópur C með minnstu. Marktækur munur var á æfingafíkn milli hóps C og hóps A (p < 0,001) og á milli C og B (p = 0,007). Hópi A fannst mest gaman á æfingum og var munurinn marktækur á milli A og C (p < 0,001). Í vellíðan var A hópur hæstur, munurinn á milli A og C hóps var marktækur (p = 0,018). Hópur A æfir knattspyrnu marktækt oftar í viku en hópur B (p < 0,001) og hópur C (p < 0,001). Ekki reyndist marktækur munur á lífsánægju, frammistöðukvíða né almennum kvíða á milli hópa.
Niðurstöður gefa til kynna að í heildina eru stúlkurnar almennt heilbrigðar en getu meiri stúlkur æfa meira, hafa meira gaman á æfingum, eru með meiri æfingafíkn og líður betur heldur en getuminnstu stúlkurnar. Hins vegar var enginn munur milli hópa hvað varðar almennan kvíða eða lífsánægju.
Lykilorð: andleg líðan, knattspyrna, unglingsstúlkur, kvíði, vellíðan, getuskipting, lífsánægja.